16
ÞJÓÐLEIKHÚSIÐ

Hedda Gabler - leikskra

Embed Size (px)

DESCRIPTION

Hedda Gabler - leikskra a flettiformi

Citation preview

Page 1: Hedda Gabler - leikskra

ÞJÓÐLEIKHÚSIÐ

Page 2: Hedda Gabler - leikskra
Page 3: Hedda Gabler - leikskra

eftir Henrik Ibsen

Leikstjórn Kristín Eysteinsdóttir

Þýðing og dramatúrgía Bjarni Jónsson

Leikmynd Finnur Arnar Arnarson

Búningar Filippía I. Elísdóttir

Tónlist Barði Jóhannsson

Lýsing Halldór Örn Óskarsson

Leikmunir, yfirumsjón: Rakel Stefánsdóttir

Förðun, yfirumsjón: Ingibjörg G. Huldarsdóttir

Hárgreiðsla, yfirumsjón: Þóra G. Benediktsdóttir

Búningar, yfirumsjón: Berglind Einarsdóttir

Hljóðstjórn: Ísleifur Birgisson

Umsjónarmaður Kassans og sýningastjórn: Heimir Logi Gunnarsson

Leikmyndarsmíði og málun: Sviðsmyndir

Þjóðleikhúsið 2010-2011, 62. leikár, 18. viðfangsefni Frumsýning í Kassanum 10. mars 2011

Page 4: Hedda Gabler - leikskra
Page 5: Hedda Gabler - leikskra

Jörgen TesmanValur Freyr Einarsson

HeDDa gaBLerIlmur Kristjánsdóttir

JÚLÍana TesmanKristbjörg Kjeld

THea eLVsTeDBrynhildur Guðjónsdóttir

BraKK LögmaðurEggert Þorleifsson

eLLerT LöVBOrgStefán Hallur Stefánsson

BerTa VinnuKOnaHarpa Arnardóttir

Page 6: Hedda Gabler - leikskra

Allir standa einir, þó er enginn einn- f á e i n o r ð u m H e d d u G a b l e r

Þegar rætt er um upphaf nútíma-leikritunar hlýtur talið fyrr eða síðar að berast að Norðmanninum Henrik Ibsen. Ibsen fór fremstur í flokki þeirra nítjándu aldar skálda sem tóku upp þráðinn frá Shakespeare, eftir að verk hins síðarnefnda gengu í endurnýjun lífdaga í evrópsku leikhúsi á ofanverðri 18. öld. Áhrifanna frá Shakespeare gætir að vísu lítið í formgerð leikritanna sem Ibsen samdi, það á ekki síst við um leikritin sem hann skrifaði á síðari hluta ævinnar. Að forminu til tengjast þau hinni svonefndu frönsku stofukómedíu órofa böndum. Þegar kemur að persónusköpun og grunnhugsun leikritanna, aftur á móti, – en hún er fyrst og síðast tilvistarlegs eðlis – kemur tengingin milli skáldanna tveggja glögglega í ljós. Báðir setja þeir Ibsen og Shakespeare einstaklinginn í öndvegi. Það er manneskjan sem skiptir máli og sú stefna sem hún markar

lífi sínu hverju sinni. Fólkið sem rekur erindi sín á leiksviðinu er aftur á móti ekki allt þar sem það er séð og engan veginn óhætt að taka bókstaflega mark á orðum þess eða gerðum. Yfirleitt býr eitthvað undir; dulinn ásetningur sem skiptir oft meira máli heldur en það sem við sjáum og heyrum hverju sinni. Þar með er áhorfandinn jafnan settur í þá aðstöðu að þurfa í sífellu að viða að sér nýjum upplýsingum, skipa þeim niður í huga sér og setja í samhengi við þá vitneskju sem hann býr þá þegar yfir.

Þrátt fyrir að þannig megi rekja ýmsa þræði sem einkenna verk Ibsens og Shakespeares og varða mikilvægi einstaklingsins í samfélaginu og á leiksviðinu, þá voru höfundarnir auðvitað uppi á ólíkum tímum. Á milli þeirra liggja þrjú árhundruð og þar með öll sú samfélagsþróun og hugmyndasaga sem kynti sífellt meir undir efahyggju og þeirri skoðun að ef

til vill væri ekki til nein guðleg hönd sem stýrði lífi dauðlegra manna. Að vísu er engin sérstök ástæða til þess að bendla Shakespeare of mikið við trúmál, enda hníga öll rök að því að sem höfundur hafi hann aðeins trúað á einn hlut í þessum heimi – stöðugt stjórnarfar. Persónur í verkum hans hrópa engu að síður á guðina og biðja drottinn vægðar. Persónurnar í leikritum Ibsens ákalla einnig guð sinn, en öfugt við persónur í verkum enska skáldjöfursins gera þær ekki ráð fyrir að þeim sé svarað. Persónur Ibsens eru nefnilega staddar í guðlausum heimi; veröld óreiðunnar, sem hver og einn reynir að ráða bót á með eigin hagsmuni að leiðarljósi.

„Tilvera okkar er ekki annað en glíman við hin myrku öfl sem búa innra með hverjum manni,“ skrifaði Henrik Ibsen árið 1889, skömmu áður en leikritið um Heddu Gabler kom fyrst

Page 7: Hedda Gabler - leikskra
Page 8: Hedda Gabler - leikskra

fyrir almenningssjónir. Hann var um þær mundir staddur á tímamótum sem höfundur, hafði skrifað röð samtímaverka þar sem sviðsljósinu var iðulega beint að konum og örlögum þeirra (Brúðheimilið, Afturgöngur, Rosmershólmur, Konan frá hafinu), en nú tók hann að leiða hugann að listamanninum; byggingarmeistaranum sem raungerir í sífellu drauma sína til þess eins að horfa upp á þá hrynja og verða að engu. Á þessu lokaskeiði skáldferilsins skrifaði Ibsen nokkur leikrit sem snerust einmitt um þessa hugmynd, þeirra á meðal Jón Gabríel Borkman, Sólnes byggingarmeistara og leikritið Dauðir upp rísa.

Á krossgötunum sjálfum, sem áður er getið, stendur hins vegar leikritið um Heddu, þá mögnuðu kvenpersónu. Í því verki lýkur Ibsen upp dyrum að veröld þar sem tilvist einstaklingsins er megin umfjöllunarefnið; glíma hans við „hin

myrku öfl“ og sitt nánasta umhverfi. Deila má um hvort Hedda Gabler

sé í grunninn skoplegur harmleikur eða harmrænn skopleikur. Í leikritinu er varpað upp mynd af samfélagi þar sem þröngir hagsmunir einstaklinga ráða för; hér bjargar sér hver sem betur getur. Sjálf atburðarásin á sér því fyrst og síðast rætur í ásetningi og erindi fólksins sem er knúið áfram af metorðagirnd og öryggisþörf. Það eru persónurnar sem búa til „söguna“; hún hvílir einvörðungu á atvikum og aðstæðum sem verða til vegna inn byrðis átaka fólksins.

Sjálf sviðsmyndin er kunnugleg, frá höfundarins hendi; borgaralegt samfélag þar sem allt virðist slétt og

fellt á yfirborðinu, þótt undir niðri ríki einhvers konar stríðsástand. Hedda Gabler stendur í forgrunni verksins sem eins konar uppreisnarmaður og andhetja og virðist fyrirmunað að sætta sig við skorður eða hömlur í lífinu. Hún ætlar sér að komast af í samfélaginu sem frjáls manneskja, fullkomlega óháð öðru fólki. Hedda býr yfir miklu afli, en hún höndlar ekki kraftana sem eru að verki innra með henni og reynir að hamla gegn þeim. Bælingin framkallar ótta og því vegast á í tilfinningalífi hennar þrá eftir frelsi og þörf fyrir öryggi. Tilraunir Heddu til þess að bjarga sjálfri sér með því að varpa tilvistarvanda sínum yfir á þá sem standa henni næst eru dæmdar til

Page 9: Hedda Gabler - leikskra

að misheppnast. Hún einangrast um síðir og sér enga útgönguleið. Aðeins þrjátíu og sex klukkutímum eftir að hún snýr heim úr sex mánaða langri brúðkaupsferð er hún horfin af sviðinu fyrir fullt og allt. „Það rennur smám saman upp fyrir henni,“ skrifaði Ibsen hjá sér á ritunartíma verksins, „að lífið er farsi og ástæðulaust að fylgjast með allt til enda.“

Þegar fyrstu uppsetningarnar á leikritinu litu dagsins ljós, skömmu fyrir aldamótin 1900, var því haldið fram að það væri heldur engin ástæða til þess að fylgjast með leikritinu um Heddu Gabler; það væri óskiljanlegt. Í ljós kom að áhorfendur áttu í nokkrum erfiðleikum með að fylgja eftir persónum og atburðum á sviðinu. Sumir þóttust aldrei hafa lesið eða heyrt annan eins texta. Hann var talinn yfirborðslegur, persónur verksins sömuleiðis. Sjálf Hedda Gabler var ekki meðtekin sem manneskja af holdi og blóði heldur loftkennd hugmynd og Ibsen var harðlega átalinn fyrir að hafa

ekki frekar skrifað skáldsögu um þessa ungu konu. Gagnrýnendur töldu að með því móti hefði honum tekist betur að skýra til fulls persónueinkenni Heddu og aðstæður. Málsnið verksins fór einnig í taugarnar á þeim sem um það fjölluðu; það þótti ekki nógu skáldlegt, samtöl persónanna tilgangslaus og menn söknuðu þess að heyra leikarana ekki setja á langar einræður. Niðurstaðan var sú – jafnt í hópi gagnrýnenda sem almennra áhorfenda – að Hedda Gabler væri merkingarlaust leikrit. Dómur sögunnar hefur hins vegar fallið Heddu í hag; leikritið er í dag talið „nútímalegasta“ verk skáldsins og í gegnum tíðina hefur ekkert verka hans ratað oftar á leiksvið.

Að mörgu leyti má rekja visældir Heddu Gabler til þeirrar staðreyndar að leikritið býður upp á margvíslega túlkunarmöguleika og áherslur í leik og sviðsetningu. Textinn er hlutlægur, engin skýr afstaða er tekin með eða á móti einstaka persónum þess. Manneskjurnar á sviðinu eru hvorttveggja sterkar og breyskar og þær

beita öllum brögðum til þess að ljá lífi sínu tilgang. Þær þrá frelsið, geta hins vegar ekki hver án annarrar verið. Allir standa einir, þó er enginn einn.

Það er gaman að velta fyrir sér mögulegum tengslum Heddu Gabler og Hamlets eftir Shakespeare. Báðar eru aðalpersónurnar utanveltu í veröldinni og hafa misst föður sem þær höfðu í hávegum. Hedda og Hamlet glíma við einsemdina í lífi sínu og tilgangsleysið sem nístir hug þeirra og hjarta. Með þeim bærast flóknar tilfinningar sem hvorugt þeirra ræður almennilega við. Og bæði eru þau í uppreisn gegn hefðbundnum viðhorfum og gildum í samfélaginu. Barátta þeirra höfðar því til áhorfenda á öllum tímum; þau eru sannir aldarspeglar sem hrífa með sér tímanna tákn í hvert sinn sem saga þeirra ratar á svið.

Bjarni Jónsson

Page 10: Hedda Gabler - leikskra
Page 11: Hedda Gabler - leikskra
Page 12: Hedda Gabler - leikskra

sKien1828 Henrik Ibsen fæðist þann 20. mars. Faðir hans er

kaupmaður og fjölskyldan tilheyrir yfirstéttinni í Skien.1835 Faðirinn verður gjaldþrota og fjölskyldan sest að á litlu

sveitabýli utan við Skien. 1843 Fjölskyldan flytur aftur til Skien og Ibsen fermist.

grimsTaD1844 Gerist nemi hjá lyfsala í Grimstad. Býr við mikla fátækt

þau sex ár sem hann er í Grimstad. Byrjar að yrkja ljóð.1846 Eignast son með þjónustustúlku á heimili apótekarans,

heldur því leyndu en borgar samviskusamlega meðlag í fjórtán ár. Byrjar að skrifa sitt fyrsta leikrit, Catalina.

KrisTJanÍa1850 Heldur til Kristjaníu (nú Osló) og Catalina er gefið út.

Ekkert leikhús í Kristjaníu sýnir verkinu áhuga. Lýkur við sitt annað leikrit, Kjæmpehøien, og það er frumsýnt hjá Kristjaníuleikhúsinu.

Bergen1851 Ráðinn til starfa sem leikskáld við Norska leikhúsið

í Bergen, þar sem honum er einnig ætlað að stjórna leiksýningum. Námsferð til Kaupmannahafnar og Þýskalands.

1853 Sancthansnatten, eina leikritið sem Ibsen lét aldrei gefa út, frumsýnt í Norska leikhúsinu og fellur.

1854 Endursemur Kjæmpehøien en sýningu Norska leikhússins á því er ekki vel tekið.

1855 Fru Inger til Østeraad frumsýnt í Norska leikhúsinu og fellur.

1856 Gildet paa Solhoug (Veislan á Sólhaugum, LR 1924, Norræna félagið 1942/43) frumsýnt í Norska leikhúsinu og nýtur mikilla vinsælda.

1857 Olaf Liljekrans frumsýnt í Norska leikhúsinu og fellur.

KrisTJanÍa1857 Ráðinn listrænn stjórnandi Norska leikhússins í

Kristjaníu. 1858 Hærmændene på Helgeland (Víkingarnir á Hálogalandi,

LR 1903 og 1923) frumsýnt. Kvænist Suzannah Thoresen.

1859 Sonurinn Sigurd fæðist.1862 Norska leikhúsið í Kristjaníu verður gjaldþrota.

Ferðast um Guðbrandsdal og safnar þjóðsögum og þjóðlegum fróðleik. Kjærlighedens Komedie er gefið út, en ekki frumsýnt fyrr en árið 1873. Ráðinn bókmenntaráðunautur við Kristjaníuleikhúsið.

1864 Kongs-emnerne (Konungsefnin) frumsýnt í Kristjaníuleikhúsinu í leikstjórn Ibsens og sýningin er mikill sigur.

róm1864 Hlýtur ferðastyrk og flytur með fjölskyldu sína til

Rómar.1866 Ljóðaleikritið Brandur gefið út og fær frábærar viðtökur,

frumflutt árið 1885. Ibsen verður frægur um alla Evrópu og Norska Stórþingið veitir honum listamannalaun til æviloka.

1867 Peer Gynt (Pétur Gautur, LR 1944, Þjóðlh. 1962, 1991 og 2006, LA 1998) er gefið út og verður annar stórsigur fyrir Ibsen, frumflutt 1876.

Henrik Ibsen

Page 13: Hedda Gabler - leikskra

DresDen1868 Ibsenfjölskyldan flytur til Dresden.1869 De unges Forbund kemur út og er frumsýnt í

Kristjaníuleikhúsinu. 1871 Fyrsta og eina ljóðasafn Ibsens, Digte, kemur út.1873 Kejser og Galilæer kemur út, frumsýnt 1896.1874 Heimsækir Noreg.

müncHen 1875 Fjölskyldan flytur til München.1877 Hið fyrsta í röð raunsæislegra samtímaverka Ibsens.

Samfundets støtter (Máttarstólpar þjóðfélagsins, Þjóðlh. 1978) frumflutt í Odense og sýnt í Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn.

róm1878 Flytur að nýju til Rómar, en býr þó næsta ár í München.1879 Et dukkehjem (Brúðuheimili, LR 1905 (Heimilisbrúðan),

Soffía Guðlaugsdóttir í Iðnó 1932/33, LA 1945, Þjóðlh. 1952, 1973 og 1998, Þíbylja 1994) frumsýnt í Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn.

1882 Gengangere (Afturgöngur, LR 1904, 1920 og 1927, Þjóðlh. 1965, LA 1994, Frú Emilía 1993) frumflutt í Chicago.

1883 En folkefiende (Þjóðníðingur, LR 1908, Þjóðlh. 1975 (leikgerð Arthurs Millers), LR 2001 (Fjandmaður fólksins, leikgerð Arthurs Millers) frumflutt í Kristjaníuleikhúsinu.

1885 Vildanden (Villiöndin, LR 1928 og 1976, Þjóðlh. 1954 og 1996) frumflutt í Þjóðleikhúsinu í Bergen. Heimsækir Noreg.

müncHen 1885 Sest aftur að í München.1887 Rosmersholm (Rosmershólmur) frumflutt í Þjóðleik-

húsinu í Bergen.1889 Fruen fra havet (Konan við hafið) frumflutt í

Kristjaníuleikhúsinu og Hoftheater í Weimar samtímis. Kynnist Emilie Bardach, ungri konu sem hann verður hrifinn af og sumir telja að hafi verið fyrirmynd

Heddu Gabler.

KrisTJanÍa1891 Hedda Gabler (LR 1942 og 1968, Katharsis 1992,

Fjalakötturinn 2007, Þjóðlh. 2011) frumflutt i München 31. janúar og frumsýnt í Kristjaníuleikhúsinu 26. febrúar. Verkið var gefið út árið áður, en verk Ibsens komu gjarnan út á bók áður en þau voru frumsýnd. Sest að í Kristjaníu eftir að hafa búið í 27 ár fjarri heimalandinu.

1893 Bygmester Solness (Sólnes byggingameistari, Þjóðlh. 1970) frumflutt í Berlín.

1895 Lille Eyolf frumflutt í Berlín.1897 John Gabriel Borkman (Þjóðlh. 2003) frumflutt í

Helsingfors.1898 Sjötugsafmæli Ibsens fagnað í Kristjaníu, Kaupmanna-

höfn og Stokkhólmi.1900 Når vi døde vågner (Þegar dauðir upp rísa) frumflutt í

Stuttgart. Fær hjartaslag í fyrsta sinn.1906 Ibsen deyr 23. maí.

Sýningar á leikritum Ibsens á íslensku leiksviði eru tilgreindar innan sviga í yfirlitinu en einnig hafa mörg verk hans verið leikin í Ríkisútvarpinu.

Page 14: Hedda Gabler - leikskra

BARðI JÓHANNSSON hefur sent frá sér hljómplötur og komið fram á fjölda tónleika innan lands sem utan með hljómsveit sinni Bang Gang og dúettnum Lady & Bird. Hann hefur einnig samið tónlist fyrir ýmsa aðra þekkta tónlistarmenn, kvikmyndir og sjónvarpsþætti, og starfað sem upptökustjóri. Hann samdi tónlist fyrir Sædýrasafnið og

Brennuvargana hér í Þjóðleikhúsinu. Hann hlaut Edduverðlaunin fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Reykjavík-Rotterdam.

BJARNI JÓNSSON lauk magisternámi í leikhús fræði, nútímasögu og norrænum fræðum frá Ludwig-Maximillians Universität í München 1992 og hefur starfað sem leikskáld, dramatúrg og þýðandi, meðal annars fyrir Þjóðleikhúsið, LR, LA, RÚV og leikhópa. Hann er einn stofnenda LÓKAL - alþjóðlegrar leiklistar hátíðar í Reykjavík. Þjóðleikhúsið

sýndi leikrit hans Óhapp, Vegurinn brennur og Kaffi. Hann hlaut Grímuna fyrir þríleik sinn fyrir útvarp, Besti vinur hundsins.

BRYNHILDUR GUðJÓNSDÓTTIR lauk námi í leiklist frá Guildhall School of Music and Drama 1998 og hefur leikið fjölda hlutverka hér í Þjóðleikhúsinu og víðar. Meðal nýlegra verkefna hér eru Gerpla, Íslandsklukkan og Frida… viva la vida, en hún var jafnframt höfundur síðastnefnda verksins. Hún hlaut Grímuna sem leikskáld ársins fyrir Brák hjá

Landnámssetri Íslands, og fyrir leik sinn í Brák, Pétri Gaut og Edith Piaf. Hún hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2008.

EGGERT ÞORLEIFSSON hefur leikið í fjölda sýninga hjá Þjóðleikhúsinu, LR og leikhópum, og í fjölmörgum sjónvarpsmyndum, kvik-myndum og skemmtiþáttum. Hér hefur hann leikið í Þrettándu krossferðinni, Engisprettum, Þrettándakvöldi, Sumarljósi, Utan gátta, Brennuvörgunum, Oliver, Hænuungunum og Lé konungi. Eggert hlaut Grímuverðlaunin fyrir

leik sinn í Belgíska Kongó og var tilnefndur fyrir Hænuungana, Utan gátta og Chicago.

FILIPPÍA I. ELÍSDÓTTIR hefur komið að yfir eitt hundrað sýningum sem búninga- og sviðsmyndahönnuður, listrænn ráðgjafi og höfundur gjörninga, og hefur starfað fyrir leikhús, óperur og kvikmyndir, jafnt á Íslandi sem erlendis. Meðal nýjustu verkefna eru Ofviðrið í Borgarleikhúsinu, Pétur Gautur hjá Luzerner Theater og Frida í Þjóðleikhúsinu.

Hún hefur fimmtán sinnum verið tilnefnd til Grímunnar og hlaut verðlaunin fyrir Sweeney Todd, Virkjunina og Woyzeck.

FINNUR ARNAR ARNARSON útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1991. Hann hefur gert fjölda leikmynda en meðal þeirra nýjustu eru Íslandsklukkan og Sumarljós í Þjóðleikhúsinu, Rautt brennur fyrir í Borgarleikhúsinu, Halla og Kári í Hafnarfjarðarleikhúsinu og Falið fylgi hjá LA. Hann starfar einnig sem myndlistarmaður

og hefur haldið fjölda einka- og samsýninga. Hann var tilnefndur til Grímunnar fyrir leikmynd í Íslandsklukkunni og Kryddlegnum hjörtum.

HALLDÓR ÖRN ÓSKARSSON nam ljósa-hönnun við The Bristol Old Vic Theatre School í Bretlandi og hefur hannað lýsingu fyrir á fimmta tug sýninga, meðal annars fyrir Leikfélag Íslands, LA og LR. Hann lýsti Lé konung, Hænuungana, Íslandsklukkuna, Utan gátta, Þrettándakvöld og Brennu vargana í Þjóðleikhúsinu. Hann hlaut Grímu verðlaunin

fyrir Ófögru veröld og Utan gátta, og var tilnefndur til sömu verðlauna fyrir Jesus Christ Superstar, Héra Hérason og Íslandsklukkuna.

HARPA ARNARDÓTTIR útskrifaðist frá Leiklistar skóla Íslands 1990. Hún hefur leikið í fjölda leiksýninga, nú síðast í Finnska hestinum hér í Þjóðleikhúsinu, Steinar í djúpinu hjá Lab Loka og Dauðasyndunum hjá LR. Hún hlaut Grímuna fyrir Steinar í djúpinu og var tilnefnd fyrir And Björk of course, Sporvagninn Girnd, Dauðasyndirnar og

Dubbeldusch. Hún hefur leikstýrt sýningum hjá LR, Nemendaleikhúsinu, Augnabliki og nú síðast Súldarskeri í Tjarnarbíói.

Page 15: Hedda Gabler - leikskra

ILMUR KRISTJÁNSDÓTTIR útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ vorið 2003. Hún hefur leikið fjölda hlutverka hjá LR, meðal annars í Fólkið í kjallaranum, Línu Langsokk, Ófögru veröld, Ræðismannsskrifstofunni, Sölku Völku og Ausu Steinberg. Hún lék í Íslandsklukkunni, Gerplu og Ivanov í Þjóðleikhúsinu og í kvikmyndinni Brúðgumanum. Hún hlaut

Edduverðlaunin sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir Stelpurnar. Hún fékk Grímuverðlaunin fyrir leik sinn í Ívanov.

KRISTBJÖRG KJELD útskrifaðist frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1958. Hún hefur leikið fjölda burðarhlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, leikhópum, LR og í kvikmyndum. Meðal nýlegra verkefna hér eru Hænuungarnir, Utan gátta, Sumardagur, Mýrarljós, Græna landið og Halti Billi. Kristbjörg hlaut Grímuna fyrir leik sinn í

Hænuungunum og var tilnefnd fyrir Halta Billa og Mýrarljós. Hún hlaut Edduverðlaunin fyrir Mömmu Gógó, Kaldaljós og Mávahlátur.

KRISTÍN EYSTEINSDÓTTIR lauk meistaragráðu í leikstjórn frá Goldsmiths, University of London og BA námi í dramatúrgíu frá Árósarháskóla. Hún leikstýrði Þeim ljóta hér í Þjóðleikhúsinu 2008 og hlaut þá Grímuverðlaunin. Leikstjórnar verkefni hennar í Borgarleikhúsinu eru Fólkið í kjallaranum, Rústað, Dúfurnar og Rautt brennur fyrir.

Hún hefur leikstýrt við Útvarpsleikhúsið, Nemendaleikhúsið og hjá leikhópum. Hún er stundakennari við leiklistardeild LHÍ.

STEFÁN HALLUR STEFÁNSSON útskrifaðist frá leiklistardeild LHÍ 2006. Hann hefur starfað með Þjóðleikhúsinu, LR, Vesturporti, Vér Morðingjum, Sokkabandinu, ART í Bandaríkjunum og CDN Orleans í Frakklandi. Hann hefur leikið í kvikmyndum og sjónvarpi, meðal annars í Pressu, Jóhannesi, Desember, Roklandi og Djúpinu. Hann er

stundakennari við leiklistardeild LHÍ. Meðal nýlegra verkefna eru Lér konungur, Íslandsklukkan og Gerpla í Þjóðleikhúsinu og Enron í Borgarleikhúsinu.

VALUR FREYR EINARSSON lauk leiklistarnámi frá Manchester Metropolitan School of Theatre 1995 og hefur leikið með ýmsum leikhúsum og leikhópum. Meðal nýlegra verkefna hans eru Elsku barn og Enron í Borgarleikhúsinu og Sædýrasafnið, Baðstofan og Leg í Þjóðleikhúsinu. Hann er annar stofnenda CommonNonsense sem stóð

fyrir samnefndri sýningu og Forðist okkur. Hann leikstýrði Af ástum manns og hrærivélar sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu í samstarfi við CommonNonsense.

Sýningin tekur tæplega tvo og hálfan tíma, eitt hlé.

Ritstjórn leikskrár: Melkorka Tekla Ólafsdóttir. Umsjón: Sigurlaug Þorsteinsdóttir. Útlit: Ragnhildur Ragnarsdóttir. Ljósmyndir: Eddi. Prentun: Oddi. Útgefandi:

Þjóðleikhúsið. Myndir í leikskrá eru teknar á æfingu og eru því ekki heimild um endanlegt útlit sýningarinnar.

Miðasölusími: 551 1200. Netfang miðasölu: [email protected] Netfang Þjóðleikhússins: [email protected]

Heimasíða Þjóðleikhússins: www.leikhusid.is

BAKHJARL ÞJÓÐLEIKHÚSSINS

Page 16: Hedda Gabler - leikskra