8
Hreinn Friðfinnsson

Hreinn Friðfinnsson

Embed Size (px)

DESCRIPTION

 

Citation preview

Page 1: Hreinn Friðfinnsson

Hreinn Friðfinnsson

Page 2: Hreinn Friðfinnsson

Ég og Pétur 2008Ljósmyndir

Vísbending (úr krossgátu) 2010

Eign listamannsins

Sýning á verkum Hreins Friðfinnssonarúr einkasafni Rögnu Róbertsdóttur og Péturs Arasonar í höfuðstöðvum Arion banka 5. maí til 17. ágúst 2012.

Anatomy 1989 - 200096 x 520 cm

Attending 1973 52 x 61,6 cm

Page 3: Hreinn Friðfinnsson

Atelier sketch1999 20 x 20 cm

Líkan 200811 x 26 x 21 cm

Beautiful20039 x 12 x 3,5 cm

UppsprettaSource 200315 cm

Page 4: Hreinn Friðfinnsson

Painting1996 - 2006182 x 82 cm

Placement 1999 - 200022 x 22 cm

GólfverkFloor Piece199230,5 x 60,5 x 56,5 cm

A Folded Star 1983 (endurgert 2004) 87 x 115 cm

Streamer 1999 - 200022 x 22 cm

Page 5: Hreinn Friðfinnsson

46 dropar 2006800 x 4 cm Eigandi Arion banki

Gull 199925 x 25 cm

Arrival 2 199815 x 11 cm29 x 21 cm

Fragment of Remembrance 1990 48 x 72 cm

Corner Piece 1999 34 x 34 x 34 cm

Page 6: Hreinn Friðfinnsson

From Mount Sainte-Victoire 199868 x 53 cm

NóttNight 1999 70 x 90 cm

To light, shadow and dust 1994 60 x 206 x 15 cm

Tíu mínútur yfir fjögurTen past four 2000Innsetning

Strandakirkja- úr seríunni ÁlagablettirSacred and enchanted places 197252 x 71,5 cm

Page 7: Hreinn Friðfinnsson

Structure of still moments 199120 x 20 x 4 cm

Án titils 1999 84 x 122 cm

Song 1992 - 200043 x 63 cm

Five minute monumentby the sea 2007 30 x 35 cm

Eigandi Arion banki

GriðarstaðurSanctuary 1992 - 2007 60,5 x 81,5 x 46,5 cm

Page 8: Hreinn Friðfinnsson

Hreinn Friðfinnsson fæddist á Bæ í Miðdölum í Dalasýslu árið 1943. Ungur að aldri sótti hann málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands, þar sem abstraktmálverkið var enn í hávegum haft og nýir straumar voru að byrja að láta á sér kræla. Hann fór í fyrsta sinn í námsferð til London með Sigurjóni Jóhannssyni vini sínum árið 1963. Eftir heimkomuna slógust þeir í lið með Jóni Gunnari Árnasyni og Hauki Dór Sturlusyni og sýndu saman árið 1965 í Ásmundarsal við Freyjugötu. Yfirskrift sýningarinnar var SÚM, sem upp frá því varð að einkennisnafni yfir heilt tímabil og hóp listamanna á sjöunda áratugnum. Hreinn tók þátt í samsýningum þar til hann fluttist til Amsterdam árið 1971 og hefur búið í Hollandi síðan. Orðspor hans sem myndlistarmanns hefur vaxið jafnt og þétt frá því að hann var valinn til að sýna við opnun Pompidou safnsins í París árið 1977. Meðal viðurkenninga sem Hreini hefur hlotnast eru Ars Fennica verðlaunin árið 2000 sem veitt eru í Finnlandi og hin sænsku Carnegie verðlaun sama ár. Árið 2007 var haldin viðamikil yfirlitssýning á verkum hans í Serpentine Gallery í Lundúnum sem vakti mikla athygli á list hans og staðfesti stöðu hans meðal fremstu listamanna af sinni kynslóð.

Verk Hreins geta verið afar einföld í sniðum og úr ólíklegasta efniviði, sauðaleggur og öðuskel á hillu, pappakassi fóðraður að innan með skærum pappír, glerplata kámuð með litríkum fingraförum. Að sama skapi verður list hans því margbrotnari sem hún er skoðuð betur, sem sést best af því að fjölmargir gagnrýnendur og listfræðingar sem skrifað hafa um list hans hafa ósjaldan lent í vandræðum með að gefa skýringar á þeim töfrum sem þessi einföldu verk búa yfir. Oft á tíðum hefur verið gripið til þess orðalags að kalla þau ljóðræn konseptverk þar sem átt er við að þótt þau höfði til ímyndunaraflsins á mun persónulegri og skáldlegri hátt en algengt er um dæmigerða konseptlist. Vissulega drógu verk Hreins til að byrja með dám af konseptlist sjöunda og áttunda áratugarins, sem var í uppreisn gegn hinum hefðbundna listmun, málverkinu og höggmyndinni, með því að notast við forgengilegar ljósmyndir, texta og prentmiðla. Í sumum verkunum leitaði hann fanga í frásögnum og þjóðtrú, eins og Húsið/House Project frá 1974, sem byggði á frásögn Þórbergs Þórðarsonar af Sóloni í Slunkaríki sem byggði hús á ranghverfunni, þannig að innveggir sneru út og ytra byrði sneri inn. Hreinn byggði lítið hús eftir frásögninni og tók ljósmyndir af því og hefur það síðan orðið eitt frægasta verk hans. Þegar andrúmsloftið í listheiminum breyttist í byrjun níunda áratugarins, meðal annars með tilkomu nýja málverksins, sneri Hreinn við blaðinu og breytti efnistökum sínum talsvert, byggði stór veggverk samsett úr íburðarmiklum efnum, harðviði, málmum og gleri. Upp úr 1990 verða enn breytingar þegar hann sneri sér að léttari efniviði og notaði fundna hluti í auknum mæli sem hann aðlagaði og bætti við, eins og pappa, hænsnaneti og gleri. Á síðustu árum hafa verkin orðið efnisminni og fíngerðari, þar sem Hreinn notar glerkristalla, spegla og ýmsa fundna hluti eins og laxaflugur og hræriprik úr málningarverslunum, auk þess sem hann er aftur farinn nota ljósmyndir og textabrot sem leggja snörur fyrir áhorfandann.

Þrátt fyrir að efnum og aðferðum Hreins virðast engin takmörk sett þá er alltaf sami andinn til staðar í þeim. Verkin einkennast af sífelldri leit að samspili eininga sem samsvara hver annarri á einhvern hátt, með speglun eða samhverfu, eða með því að mynda andstæður sem vega upp hver aðra. Og þetta samspil innan verksins kallast á við samsvörun milli verksins og umhverfisins, og milli áhorfandans og verksins. Í þessu margvíða samspili er hið leyndardómsfulla aðdráttarafl verkanna fólgið, að skapa mynd af sambandi manns og heims, og staðsetja listaverkið í hinu óræða bili milli hins hlutlæga heims og upplifunar okkar af honum, þar sem verkið verður hluti af einhverju sem er miklu stærra en það sjálft.

Gunnar J. Árnason

Bestu þakkir til Ívars Valgarðssonar og Kristins E. Hrafnssonar fyrir faglega ráðgjöf og alla þeirra aðstoð.

Ljósmyndun Guðmundur Ingólfsson