23

Húsið á hálsinum

Embed Size (px)

DESCRIPTION

Saga Kópavogsskóla

Citation preview

Page 1: Húsið á hálsinum
Page 2: Húsið á hálsinum

bls. 2

Afmælisrit Kópavogsskóla

Myndin á forsíðu er unnin af nemendum í 6. N og 6. S á þemadögum 2009 Gefið út vorið 2009 í tilefni 60 ára afmælis skólans

Ábyrgð: Jóna Möller Uppsetning: Anna Björg Sveinsdóttir

Prentun: Litlaprent ©2009

Page 3: Húsið á hálsinum

bls. 3

Ljósmynd: Friðrik Baldursson.

JÓNA MÖLLER

AÐFARARORÐ Þetta rit er gefið út í tilefni þess að 12. janúar 2009 voru 60 ár liðin frá því að kennsla hófst í elsta hluta Kópavogsskóla.

Á merkum tímamótum er vel við hæfi að rifja upp hluta sögunnar bæði skólans og sveitarfélagsins sem voru samofnar á fyrstu árunum því hérna fór fram fleira en beint skólastarf. Umfangsmikil starfsemi vaxandi sveitarfélags var hér og upphafsár ýmissa stofnana bæjarins og ekki er hægt að segja annað en að skólahúsnæðið hafi verið nýtt til hins ítrasta. Mikilvægt er að sú saga lendi ekki í glatkistunni og því er lögð áhersla á það efni.

Þessi skrif eru að mestu leyti samin og/eða tekin saman af Ólafi Guðmundssyni sem var nemandi hér þegar kennsla hófst 12. janúar 1949 og síðar kennari og loks skólastjóri Kópavogsskóla frá 1990 – 2006. Hann segir meðal annars frá fyrsta deginum í nýjum skóla, þróun starfseminnar og ýmsum atburðum innan skóla og utan.

Birgir Ás Guðmundsson sem einnig var nemandi hér á fyrstu árum skólahalds, og síðar kennari, rifjar upp svipmyndir frá Kópavogi í árdaga og Sigurður Grétar Guðmundsson, fyrrverandi Kópavogsbúi, skrifar um fyrstu leiksýningu Leikfélags Kópavogs. Myndir frá þessum elsta tíma eru fáar til hér í skólanum og í misjöfnu ástandi, hefur heldur dofnað yfir þeim.

Skrif Benedikts Guðmundssonar, sem útskrifaðist frá skólanum 1974 og Lovísu Árnadóttur, sem útskrifaðist 1995, færa okkur heldur nær nútímanum og auðvitað væri hægt að halda endalaust áfram upprifjunum.

Sagan skrifar sig daglega og núna birtist hún og geymist á heimasíðu skólans bæði í rit- og myndmáli.

Myndverkin sem sett eru inn í pistlana eru nútímaverk en þau eru öll unnin af nemendum skólans.

KÓPAVOGSSKÓLA Í MAÍ 2009

JÓNA MÖLLER

Page 4: Húsið á hálsinum

bls. 4

EFNISYFIRLIT

Bls.

Jóna Möller

Aðfararorð ......................................................................................................................... 3

Ólafur Guðmundsson

Ávarp á 60 ára afmæli Kópavogsskóla 12. janúar 2009 .......................................................... 5

Flutningur í skólahúsið á Hálsinum ...................................................................................... 7

Almennir dansleikir, leiksýningar og messur ........................................................................ 8

Heilsuvernd í Kópavogsskóla ............................................................................................... 9

Hvað ungur nemur gamall temur ....................................................................................... 11

Tónmenntakennsla ........................................................................................................... 11

Skyldukennsla utan veggja ............................................................................................... 12

Tómstundastörf................................................................................................................ 13

Pottormar stofna knattspyrnufélag ................................................................................... 13

Fyrsta prakkarastrikið ....................................................................................................... 14

Félagslíf kennara .............................................................................................................. 15

Sigurður Grétar Guðmundsson

Fyrsta leiksýning Leikfélags Kópavogs var í Kópavogsskóla ................................................ 16

Birgir Ás Guðmundsson

Kópavogur í árdaga - stiklað á stóru .................................................................................. 17

Benedikt Guðmundsson

Hvernig ég man Kópavogsskóla ......................................................................................... 20

Lovísa Árnadóttir

Árin mín í Kópavogsskóla .................................................................................................. 22

Page 5: Húsið á hálsinum

bls. 5

1. áfangi Kópavogsskóla í byggingu.

ÓLAFUR GUÐMUNDSSON

ÁVARP Á 60 ÁRA AFMÆLI

KÓPAVOGSSKÓLA 12. JANÚAR

2009 Það var bókstaflega allt öðruvísi þegar skóli hófst hérna fyrir 60 árum – eðlilega! Þá var ég í hópi þeirra sem voru í 1. bekk – sem var fyrsti nemendahópurinn sem lauk öllu sínu skyldunámi í þessum skóla allt frá 1. bekk til svokallaðs unglingaprófs.

Fyrir það fyrsta var ógurlega kalt og mikill snjór þennan vetur og meira að segja var 9 stiga frost að morgni sumardagsins fyrsta 21. apríl. Segja má að þá hafi bara verið sex raun-verulegir vegir í Kópavogi: Nýbýlavegur, Kárs-nesbraut, Kópavogsbraut, Fífuhvammsvegur, Hlíðarvegur og Álfhólsvegur – og Hafnar-fjarðarvegurinn hlykkjaðist svo í gegnum Kópavog á svipuðum slóðum og nú og skiptir honum enn í dag í tvennt, austur og vestur. Svo lágu vegaslóðar hingað og þangað, fyrst og fremst eftir hernámslið stríðsára, m.a. heim að skólanum frá Álfhólsvegi. Símar voru í fáum húsum og mér er til efs að sími hafi verið í

skólanum í fyrstu. Rennandi vatn var nýnæmi og vatnsveitan náði ekki enn til allra húsa í Kópavogi enda var byggðin mjög dreifð.

Þá var Kópavogur eins og við þekkjum hann í dag eiginlega ekki til en engu að síður nýorðinn sérstakt sveitarfélag. Skólahurðin sem var í fyrsta skipti opnuð nemendum 12. janúar 1949 er að vísu enn á sínum stað – og um dyrnar flykktust nemendur þennan dag samtals um 100 talsins í 6 bekkjardeildum. Kennslustofurnar voru hins vegar ekki nema þrjár svo að eldri nemendur voru í skólanum fyrir hádegi en við yngri eftir hádegi. En nem-endum fjölgaði ört á næstunni og þegar við byrjendurnir frá 1949 vorum komnir í 4. bekk voru nemendur skólans orðnir 320, jafnmargir og þeir eru nú í dag, í 12 bekkjardeildum og kennslustofurnar orðnar 6 talsins. Íþróttahúsið var þá ekki risið við skólann svo að leikfimin var kennd þar sem heimilisfræðin er nú til húsa og smíðar þar sem sérdeildin er nú – en aðrar sérgreinar voru kenndar í almennum kennslustofum ef þær stóðu þá á annað borð til boða. Við fengum t.d. fyrst sundkennslu í 12 ára bekk sem stóð í 10 daga í Sundhöll Reykja-víkur – og það var eina sundkennslan allt okkar átta ára skyldunám.

Page 6: Húsið á hálsinum

bls. 6

Það voru mikil þrengsli í skólanum alla okkar skólatíð – en hafa ber í huga að skólatíminn var þá mun styttri en nú og kennt var á laugar-dögum rétt eins og aðra virka daga. Nemendur í yngri bekkjum barnastigs voru 21 kennslu-stund í skólanum í viku hverri en þeir eldri 33 stundir. Skólaárið hófst þá fljótlega í septem-ber og lauk seinni hluta maímánaðar. Jólafríið stóð í þrjár vikur og páskafríið í tvær vikur. Og svo voru það mánaðarfríin. Ef enginn frídagur var í einhverjum skólamánuði ákvað skólastjóri að gefa eins dags frí í þeim tiltekna mánuði, svokallað mánaðarfrí. Þau voru afar vinsæl og alltaf óvænt.

Unglingadeild 1958 – 1959.

Stundum á vorin varð nánast ófært heim að skólanum – einkum þegar snögghlýnaði en frost var enn í jörðu. Við slíkar aðstæður varð holtið hér í kring nánast ein forarvilpa. Þá dugði ekkert annað en að vera í góðum stígvélum sem dugði þó ekki í öllum tilvikum. Þess voru dæmi að nemendur sátu fastir í forarvilpunni og gengu hreinlega upp úr stíg-vélunum sem sátu þá eftir og sáust e.t.v. ekki meir. Húsvörðurinn var þó aldrei langt undan og reyndi að bjarga því sem bjargað varð við þessar aðstæður. Hann hreinlega bar stundum suma af yngstu nemendunum síðasta spölinn – og til að varna því að forin bærist óheft inn í skólann kom hann upp stórum vatnsbala á stéttinni framan við dyrnar þar sem mesta forin var skoluð af stígvélunum – og stundum var ekki hægt að hleypa nemendum út í frímínútur út af forinni þótt sól og blíða væri hins vegar úti og aldrei betra veður.

Skólaferðalag að loknu unglingaprófi 1956. Fyrsti árgangurinn sem lauk öllu sínu skyldunámi í

Kópavogsskóla.

Kópavogsskóli okkar sem byrjuðum hér 1949 var auðvitað barn síns tíma og í því ljósi var hann góður skóli og reyndist okkur vel þegar upp var staðið. En það sannaðist þá rétt eins og það gerist enn í dag að það eru fyrst og fremst kennararnir sem stjórna ánægjuvog nemendanna. Ég var ekki ánægður með fyrsta kennarann minn og hann var sjálfsagt ekki heldur ánægður með mig – en svo fékk ég nýjan kennara og þá breyttist allt, ánægju-vogin rauk upp úr öllu valdi. Og það hélst þótt nýir kennarar tækju við á unglingastigi. Segja má að skólaganga mín í Kópavogsskóla hafi því byrjað illa en endað vel – er það ekki merki um góðan skóla? Er ekki allt gott sem endar vel?

Page 7: Húsið á hálsinum

bls. 7

FLUTNINGUR Í SKÓLAHÚSIÐ Á

HÁLSINUM Kópavogsskóli tók formlega til starfa sem sér-stakur skóli frá og með skólaárinu 1948/49, fyrst undir heitinu Barnaskóli Kópavogs og síðar Barna- og unglingaskóli Kópavogs og því næst Kópavogsskólinn og loks sem Kópa-vogsskóli. Skólahald í Kópavogi hófst hins vegar 1945 undir merkjum Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi eða sem útibú frá þeim skóla, fyrst að Hlíðarvegi 9 (sem gekk undir heitinu Svartiskóli af því að húsið stóð lengi klætt svörtum tjörupappa), þá að Digranesvegi 2 og loks að Kársnesbraut 32.

Hinn formlegi Kópavogsskóli tók því til starfa í verksmiðjuhúsi (síðar kennt við Málningu hf.) að Kársnesbraut 32 (skammt frá Marbakka) haustið 1948 og var undirritaður þá í hópi nýnema í 1. bekk og í hópi þeirra sem luku síðan öllu skyldunámi sínu í hinum nýja skóla. Raunar hófst námið með svokölluðum vor-skóla í maí 1948 en þá var væntanlegum ný-græðingum gert skylt að koma í skólann í hálfan mánuð til aðlögunar og undirbúnings – en síðan hófst reglubundin kennsla 1. október 1948. Við skólasetningu gat skólastjórinn, Guðmundur Eggertsson, þess að kennsla hæfist að jólaleyfi loknu í nýju skólahúsi á Digraneshálsi sem þá hafði verið í smíðum um sinn. Það vakti nokkra eftirvæntingu.

Á Selfossi. Skólaferðalag 1956.

Svo rann upp síðasti skóladagurinn fyrir jóla-leyfi og síðasti skóladagurinn í verksmiðju-húsinu við Marbakka. Í huga undirritaðs var það mánudagurinn 13. desember en ekki hefur fundist óyggjandi heimild fyrir því að það

sé rétt munað. Hins vegar man undirritaður glögglega að eftir að jóla hafði verið minnst þennan umrædda síðasta skóladag og halda átti heim gerði aftaka veður, snjóstormur brast á og mikill skafrenningur svo að varla sást út úr augum. Ekki var okkur hleypt út í veðurhaminn heldur var brugðið á það ráð að fá hreppstjórann, Þórð Þorsteinsson á Sæbóli, til að aka nemendum heim. Hann átti stóran hertrukk af Dodge Weapon gerð með a.m.k. tveimur sætaröðum aftan við framsætin og tók líklega um 8 manns í sæti. Fyrst var okkur sem yngst vorum og áttum lengst að fara smalað í trukk hreppstjórans. Þótt vegalengdin hafi ekki verið löng á nútímamælikvarða gekk ferðin seint. Þegar upp á Hálsinn kom var um vegaslóða frá hernámsliðinu að fara og erfitt að greina slóðina í skafrenningnum. Undir-ritaður sat aftast vinstra megin í bíl hrepp-stjórans og fennti svo hressilega inn í bílinn að undirritaður sat orðið að mestu í snjóskafli áður en heim var komið. En áfangastað var náð og kærkomið jólafrí var framundan.

Kennarar Kópavogsskóla 1964. Aftari röð frá vinstri: Hörður Ingólfsson, Kjartan Hjálmarsson, Guðmundur Vernharðsson, Guðni Jónsson, Birgir Ás Guðmundsson, Steinar Lúðvíks-son, Benedikt Benediktsson, Guðleifur Guðmunds-son, Birgir Sighvatur Emilsson, Óli Kr. Jónsson, Ólafur Guðmundsson, Matthías Guðmundsson. Fremri röð frá vinstri: Þrúður Briem, Áslaug Eggertsdóttir, Hólmfríður Hemmert, Guðrún Sveins-dóttir, Magnús B. Kristinsson, Frímann Jónasson, Málfríður Björnsdóttir, Ragna Freyja Karlsdóttir, Kristín Sigurbjarnardóttir, Margrét Sigþórsdóttir. Á þessari mynd eru 4 menn sem gegnt hafa störfum skólastjóra við Kópavogsskóla. Þeir eru: Frímann Jónasson 1949-1964, Magnús Bæringur Kristinsson 1964-1977, Óli Kr. Jónsson 1977-1990, Ólafur Guðmundsson 1990 – 2006.

Okkur nemendum hafði verið sagt að mæta til leiks að jólaleyfi loknu í nýju skólahúsi laugardaginn 8. janúar 1949 en var hins vegar

Page 8: Húsið á hálsinum

bls. 8

snúið frá þegar til þess kom þar sem húsnæðið var enn hálfkarað og skólahaldi því frestað til miðvikudags 12. janúar en þá hófst kennsla í hinu nýja skólahúsi á Digraneshálsinum. Afmæli Kópavogsskóla hefur allar götur síðan verið miðað við þessar dagsetningar, 8. eða 12. janúar, þótt skólinn hafi formlega tekið til starfa 1. september 1948 og skólahald í Kópa-vogi hafi byrjað 1. september 1945.

ALMENNIR DANSLEIKIR,

LEIKSÝNINGAR OG MESSUR Kvenfélag Kópavogs óx eiginlega upp með skólahúsinu á Hálsinum. Það var stofnað á byggingartíma 1. áfanga þess og fékk strax aðstöðu í skólanum enda var Kópavogsskóli eins konar félagsheimili sveitarfélagsins í árdaga.

Skólastjóri, Guðmundur Eggertsson, heimilaði kvenfélaginu í tvígang að halda almenna dans-leiki í skólahúsnæðinu en því var síðan hætt þar sem umgengni og hegðun samkomugesta þótti ekki samrýmast umgjörð skólans. Talsverð ölvun og jörvagleði var á dans-leikjunum einkum hinum síðari sem mun hafa orðið til þess að hætta með öllu almennu dansleikjahaldi í skólahúsnæðinu.

Leikfélag Kópavogs var stofnað 1957 og það fékk þá aðstöðu í skólahúsnæðinu og setti þar upp tvö leikrit. Fyrst var Spanskflugan eftir Arnold og Bach sett þar upp í mars 1957 í leikstjórn Ingibjargar Steinsdóttur og um haustið sama ár var Leynimelur 13 eftir Þrídrang settur þar á svið undir leikstjórn

Sigurðar Scheving. Þrídrangur voru þeir Emil Thoroddsen, Haraldur Á. Sigurðsson og Indriði Waage. Nokkrar sýningar voru á þessum leik-verkum í Kópavogsskóla auk þess sem farið var í sýningarferðir um Suðurland með verkin.

Hinn 1. nóvember 1952 varð sr. Gunnar Árna-son sóknarprestur í svokölluðu Bústaðapresta-kalli sem náði þá yfir Bústaða- og Kópavogs-sóknir. Hann fékk þá aðstöðu í Kópavogsskóla til guðþjónustuhalds.

Það var því messað í skólanum frá þeim tíma og allt til þess að Kópavogskirkja var vígð í desember 1962. Aðrar kirkjulegar athafnir fóru fram í kirkjum – flestar í Fríkirkjunni í Reykjavík. Hinn 1. janúar 1964 urðu sóknirnar sjálfstæðar hvor um sig og varð sr. Gunnar þá sóknarprestur hins nýja Kópavogsprestakalls.

Kvenfélag Kópavogs reyndist oft Kópavogs-skóla haukur í horni og lét sér einnig annt um starfsemi kirkjunnar þar. M.a. gaf það kirkjunni og skólanum stofuorgel sem þessar stofnanir skyldu samnýta. Eftir vígslu Kópa-vogskirkju 1962 var orgelið lengi vel í notkun í Kópavogsskóla ýmist í tengslum við tón-menntakennslu og eins í tengslum við sérstaka viðburði. Óli Kr. Jónsson skólastjóri, lét síðan gera orgelið upp og það var síðan í umsjá hans.

Á aðfangadagskvöld 1952 kl. 18:00 fór undirritaður til messu í Kópavogsskóla ásamt fjölskyldu sinni. Það var nokkuð sérstök til-finning að sitja þarna í skólastofunni sinni í jólamessu. Meira að segja voru sumir kennar-anna mættir og mér er það alltaf minnisstætt þegar einn þeirra, Magnús Bæringur Kristins-son, vék sér að mér og óskaði gleðilegra jóla að hátíðarmessu lokinni.

Page 9: Húsið á hálsinum

bls. 9

Kópavogur – líklega 1963. Kópavogsskóli fremst í vinstra horni myndarinnar.

HEILSUVERND Í

KÓPAVOGSSKÓLA Á frumbýlisárum Kópavogsskóla var ekki um að ræða skipulagða eða markvissa starfsemi sem beinlínis skyldi stuðla að heilsuvernd nemenda. Að vísu kom námsefni nemenda að meira eða minna leyti inn á heilsuverndar-hugtakið, en utan þess var ekki um skipulagða starfsemi í þá átt að ræða í skólastarfinu eða annarri starfsemi tengdri skólastarfinu. Hug-takið heilsuskóli var þá auðvitað óþekkt í tungutaki manna.

Á þessu varð þó fljótt breyting. Árið 1951 var Haukur Helgason ráðinn húsvörður Kópa-vogsskóla og fékk hann húsnæði í skólanum þegar fram liðu stundir eða á annarri hæð yfir búnings- og sturtuklefum væntanlegs íþrótta-húss þar sem Dægradvöl skólans er nú til húsa. Kona Hauks, Halldóra Guðmundsdóttir, var

hjúkrunarkona. Og brátt eftir komu þeirra hjóna í skólahúsnæðið fór Halldóra að hafa eftirlit með heilsufari nemenda, mældi hæð þeirra og þyngd, leitaði lúsa ef grunsemdir vöknuðu og hóf reglubundið lýsisgjafir við misjafnan fögnuð nemenda. Sá siður hélst í tæpa tvo áratugi. Halldóra var fastráðin hjúkrunarkona við skólann 1954 og gegndi því starfi til ársins 1973.

Í byrjun árs 1956 var Brynjólfur Dagsson ráðinn héraðslæknir í Kópavogi. Hann fékk að-stöðu í skólanum þar sem nú er skrifstofa sérdeildar skólans. Þarna störfuðu þau saman um eins árs skeið, Halldóra og Brynjólfur, og þarna varð til fyrsta heilsuverndarstöðin eða heilsugæslustöðin í Kópavogi. Þá hófst reglu-bundin læknisskoðun nemenda og skráning heilsufarsupplýsinga, berklaprófun fór fram og skólatannlækningar hófust 1959. Fyrsti skóla-tannlæknirinn var Úlfar Helgason sem rak löngum tannlæknastofu sína við Skjólbraut. En

Page 10: Húsið á hálsinum

bls. 10

Brynjólfur héraðslæknir flutti síðan lækna-stofu sína úr skólanum 1957 í nýstofnað Apótek Kópavogs v/Álfhólsveg. Með komu þeirra Halldóru og Brynjólfs til starfa í Kópa-vogsskóla má segja að vatnaskil hafi orðið í heilsuverndarmálum nemenda og þau vörðuðu veginn til framtíðar í þeim málaflokki.

Á kennarastofu, líklega 1967. Frá vinstri: Áslaug Eggertsdóttir, Guðni Guðmundsson, Magnús B. Kristinsson, Haukur Helgason, Óli Kr. Jónsson,

Guðleifur Guðmundsson, Brynjar Valdimarsson, Gerður G. Óskarsdóttir.

Á frumbýlisárum Kópavogsskóla var ekki lögð mikil áhersla á manneldismál af skólans hálfu – enda var trúlega litið svo á að þau mál væru frekar málefni heimilanna en skólans. Nær óþekkt var að nemendur hefðu t.d. með sér nesti í skólann enda var skóladagurinn þá mun styttri en hann er í dag – í sumum tilfellum allt að helmingi styttri.

Líkamsrækt var líka af skornum skammti á þessum frumbýlisárum. Íþróttakennsla var takmörkuð og oftast engin – enda var íþrótta-húsið ekki reist fyrr en sumarið 1958 og starf-semi þar hófst ekki fyrr en 1960. Þá var bygg-ingartími oft æði langur. Fram að þeim tíma var íþróttakennslan bundin áhuga einstakra kennara og fór þá fram utandyra og var fyrir bragðið líka háð veðri og vindum. Sundkennsla á þessum árum var líka tak-mörkuð – en sundlaug var engin í sveitar-félaginu fyrr en 1967. Fram að þeim tíma var nemendum ekið í nærliggjandi sveitarfélög til sundkennslu. Á frumbýlisárunum fór sund-kennslan gjarnan fram í Sundhöll Reykjavíkur eða Sundhöll Hafnarfjarðar en var oft mjög rýr, t.d. naut skrifari eingöngu sundkennslu í Sundhöll Reykjavíkur í samtals 10 daga í átta ára skyldunámi sínu í Kópavogsskóla.

Bága aðstöðu til líkamsræktar og rýra kennslu á því sviði á frumbýlisárum Kópavogsskóla bættu nemendur sér hins vegar upp með hvers konar útileikjum og stofnun íþrótta-félaga og svo gengu auðvitað allir í og úr skóla og sumir um mjög langan veg. Ennfremur gerðu kennarar allt hvað þeir gátu til að vega upp á móti aðstöðuleysinu til líkamsræktar, skipulögðu t.d. leiki í frímínútum og voru virkir þátttakendur í þeim leikjum. Á seinni hluta 6. áratugarins var t.d. komið fyrir ýmsum tækjum til íþróttakennslu á holtinu þar sem Mennta-skólinn í Kópavogi stendur nú – og farið þangað með hópa þegar færi og veður gafst.

Þótt aðstaða til líkamsræktar hafi verið bág-borin á frumbýlisárum Kópavogsskóla var þeim hluta heilsuverndar sem lýtur að hug-lægum þáttum dável sinnt. Bæði voru kennarar og skólastjóri mjög vakandi í þeim efnum svo og skólahjúkrunarkona og héraðs-læknir. Yfirvöld sýndu líka þá einstöku fram-sækni að ráða ungan sálfræðing til starfa 1956, Jónas Pálsson síðar rektor KHÍ, og starfaði hann sem skólaráðgjafi og sálfræðingur hér um slóðir í fjögur ár. Því má segja að Kópa-vogur hafi í árdaga heilsuverndar verið í fararbroddi hvað snertir andlega velferð nem-enda þótt líkamsræktin hafi hins vegar dregið dám af aðstöðuleysinu. En nemendatalan fór hratt vaxandi á þessum árum t.d. hófu 100 nemendur nám í 1. bekk skólans hvort ár 1954 og 1955 – og þegar Jónas hóf hér störf voru nemendur barnaskólans svokallaða (nem-endur í 1. – 6. bekk) orðnir 473 í 19 bekkjar-deildum en þá voru ótaldir nemendur unglingadeilda.

Page 11: Húsið á hálsinum

bls. 11

HVAÐ UNGUR NEMUR GAMALL

TEMUR Það hefur sjálfsagt alltaf verið svo að ungviði mannsins hefur gjarnan horft til hinna full-orðnu og reynt að herma eftir líferni þeirra og atferli. Hvers konar hermileikir (hlutverka-leikir) barna hafa verið alsiða og oftast þótt þroskamerki. Gamanið hefur hins vegar kárnað þegar ungviðið hefur leikið neikvæða hegðun hinna fullorðnu eða hermt eftir því sem fullorðnir mega en börn ekki. Í því sam-hengi má t.d. nefna reykingar.

Nemendur Kópavogsskóla hafa auðvitað alltaf verið börn síns tíma að þessu leyti þótt birtingarformið hafi dregið dám af tíðarand-anum hverju sinni. Undirritaður minnist þess að hafa orðið vitni að reykingatilraunum einstakra nemenda í árdaga Kópavogsskóla. Slíkt var að vísu fátítt og nær eingöngu bundið unglingastigi og einstökum atburðum. Eitt sinn vitnaðist að tilteknir nemendur í 2. bekk unglingastigs hefðu verið að fikta við reykingar undir vesturvegg skólahússins í frímínútum. Umsjónarkennarinn, Ingólfur Þorkelsson, síðar fyrsti skólameistari MK, tók málið fyrir í kennslustund og taldi mátulegast að foreldrar viðkomandi yrðu látnir vita. Meira þurfti ekki. Það hvarflaði trúlega ekki að neinum nemanda eftir þá yfirlýsingu að reyna að fikta við reyk-ingar undir vökulu auga skólans. Þannig var tíðarandinn í árdaga Kópavogsskóla og nem-endur fóru því í launkofa með neikvæða hegðun sína.

Trúlega hefur áfengi eitthvað verið haft um hönd meðal unglinga á þessum frumbýlisárum en fullyrða má að það hafi verið enn fátíðara en reykingar og því þá betur leynt. Önnur vímuefni voru þá óþekkt að kalla.

Forvarnir skólans voru nær eingöngu bundnar kennslunni, einkum heilsufræði og náttúru-fræði. Predikun um skaðsemi reykinga hófst ekki fyrir alvöru fyrr en á 7. áratugnum þegar reykingar meðal unglinga höfðu aukist verulega. Þá hófst svonefndur hræðsluáróður sem í áranna rás breyttist í raunhæfa fræðslu-starfsemi. Smám saman hafa viðhorf breyst til reykinga og annarra vímuefnanotkunar -

sem nú er fyrst og fremst litið á sem heilsufarsvandamál.

Kópavogsskóli varð reyklaus vinnustaður í kjölfar þessa árið 1993 og ber nú að vera vímuefnalaus staður lögum samkvæmt þótt stundum geti reynst erfitt að halda slíkum merkjum flekklausum með öllu.

TÓNMENNTAKENNSLA Í árdaga var ekki starfandi sérstakur tónmenntakennari við Kópavogsskóla. Það þýddi þó ekki að tónmennt væri enginn gaumur gefinn í skólastarfinu. Síður en svo. Nánast hver kennslustund hófst með því að bekkurinn söng eitt til tvö lög og oftar en ekki endaði kennslustundin einnig með söng. Þannig var tónmenntakennslan samþætt öðrum kennslugreinum og var bekkjar-kennarinn driffjöðurin í þeirri samþættingu þótt það orð væri þá ekki enn að finna í íslenskum orðaforða. Þessi siður hélst í Kópa-vogsskóla a.m.k. um tveggja áratuga skeið.

Atriði á árshátíð skólans 1967. Frá vinstri: Guðrún Ágústa Þorkelsdóttir, Sólveig Pétursdóttir, Þórunn

Björnsdóttir.

Þegar undirritaður var í 10 ára bekk 1951/52 stofnaði einn af hinum söngelsku kennurum skólans, Magnús Bæringur Kristinsson, síðar yfirkennari og skólastjóri, nemendakór til að troða upp á árshátíð skólans. Sá kór starfaði að vísu ekki nema í tæp tvö skólaár og kom einungis einu sinni fram.

Svo var það þegar undirritaður var í 1. bekk unglingastigs að ráðinn var sérstakur tón-menntakennari til að sinna tónmennt unglingastigsins – en sú tilraun mistókst og kennarinn var horfinn á braut um mitt skólaár.

Page 12: Húsið á hálsinum

bls. 12

Árið 1957 kom til starfa í Kópavogsskóla Kjartan Hjálmarsson og var honum falin tónmenntakennsla að hluta. Sinnti hann tón-menntakennslunni til ársins 1966 en þá kom María Einarsdóttir til starfa. Hún lét af störfum 2006.

Margoft hefur verið reynt að stofna kór í Kópavogsskóla síðan Magnús Bæringur stofnaði fyrsta kórinn skólaárið 1951/52 en þær tilraunir hafa ekki fest rætur til þessa fyrr en e.t.v. nú með nýjum tónmenntakennara.

SKYLDUKENNSLA UTAN VEGGJA Þegar þrengslin voru hvað mest í Kópavogs-skóla á 7. áratug síðustu aldar, skólinn þrí-setinn það er að segja að þrír bekkir voru um hverja almenna kennslustofu, var gripið til þess ráðs að leigja húsnæði í nágrenninu fyrir tilteknar námsgreinar. Þannig fór smíða-kennslan fram í Félagsheimili Kópavogs fyrri hluta 7. áratugarins en smíðahús skólans, sem nú hefur loksins verið endurnýjað, var ekki reist fyrr en 1965. Eins fór myndmennta-kennslan fram á þessum árum í rými Alþýðu-flokksfélags Kópavogs í Auðbrekku (nú nr. 7) og jafnvel önnur kennsla einnig.

Víðavangshlaup 1965. Á myndinni sést fyrsta lögreglubifreiðin í Kópavogi Y 346.

Þá var íþróttakennslan jafnan hornreka í öndverðu. Fyrst var byrjað að kenna leikfimi í stofunni þar sem heimilisfræðin er nú til húsa en það rými var þó fljótlega tekið undir kennarastofu. Þá lagðist leikfimikennslan af um sinn. Fyrsti íþróttakennarinn sem ráðinn var sem slíkur til starfa 1956, Hörður Ingólfs-son, þurfti að sinna þeirri kennslu sinni alfarið utandyra fyrstu árin en Íþróttahús Kópavogs-skóla var ekki steypt upp fyrr en 1958 og ekki tekið í notkun fyrr en 1960 – fyrsta íþrótta-húsið í Kópavogi. Til að auðvelda Herði úti-kennsluna var holtið þar sem Menntaskólinn í Kópavogi stendur nú sléttað og komið þar upp nokkrum fátæklegum íþróttaáhöldum.

Víðavangshlaup 1965. Keppnislið Kópavogsskóla. Aftari röð frá vinstri: Sverrir Ármannsson, Gestur Ólafsson, Kristinn Jóhannesson, Hugo Rasmus, Helgi Sigurjónsson. Fremri röð frá vinstri: Gunnar Steinn Pálsson, Árni Bragason, Jóhannes Sigurðsson, Böðvar Örn Sigur-jónsson, Tómas Rasmus, Guðmundur Alfreðsson.

Enga sundlaug var að finna í Kópavogi fyrr en 1967 er Sundlaug Kópavogs opnaði. Sund-kennslan var því brotakennd í öndverðu og ekki náðist að uppfylla skyldukennslu í þeim efnum frekar en leikfimi. Fyrir 1967 var nem-endum ekið suður í Hafnarfjörð eða til Reykja-víkur í sundkennslu. Meira að segja var nem-endum eitt árið ekið upp í Mosfellssveit (nú Mosfellsbæ) til sundkennslu.

Page 13: Húsið á hálsinum

bls. 13

Atriði á árshátíð líklega á 7. áratugnum.

TÓMSTUNDASTÖRF Fljótlega eftir að Kópavogsskóli hafði hreiðrað um sig í nýju skólahúsi á Digraneshálsinum var hafist handa um að bjóða nemendum upp á tiltekin tómstundastörf. Framboð þeirra og umfang þykir sennilega ekki merkilegt í dag en voru kærkomin í nægjusemi þátíðar.

Fastir liðir í þeim efnum voru jólaskemmtanir og árshátíðir, nemendasýningar í lok skólaárs og skólaferðalög. Þegar unglingadeildir tóku til starfa bættust síðan við í þeim deildum svokallaðar dansæfingar 2-4 sinnum á vetri þar sem harmonikkuleikari lék fyrir dansi, farið var á leiksýningar í Þjóðleikhúsið 1-2svar á skólaári og á skólatíma voru teknar upp kvikmyndasýningar einu sinni í mánuði og gestakomur utanaðkomandi aðila voru alltíðar einkum lista- og fræðimanna.

Þegar fram liðu stundir fjölgaði tómstunda-úrræðum, harmonikkuleikarar véku fyrir diskótekum og heilu hljómsveitunum, boðið var upp á föndurnámskeið og íþróttaiðkun. Árið 1958 var stofnað sérstakt Æskulýðsráð Kópavogs. Þá fjölgaði tómstundaúrræðum ört og sérstakar félagsmiðstöðvar voru opnaðar í kjölfarið.

POTTORMAR STOFNA

KNATTSPYRNUFÉLAG Það var tíðum skeggrætt um stofnun ung-mennafélags hér á Digraneshálsinum vorið sem undirritaður varð níu ára. Af þeirri um-ræðu drógum við pottormarnir þá ályktun að væntanlegt ungmennafélag – sem síðar hlaut nafnið Breiðablik, yrði fyrst og fremst félagsskapur „gamlingja”. Því ákváðum við að verða fyrri til og stofna okkar eigið knatt-spyrnufélag. Það hlaut í fyrstu nafnið „Knatt-spyrnufélagið Grís” – en tveimur árum síðar komumst við að þeim sannindum að nafngiftin væri ekki fyllilega við hæfi og þá var ákveðið að stofna nýtt félag, „Knattspyrnufélagið Svan”. Megin viðfangsefni félagsins var ástundun knattspyrnu, en félagsstarfsemin tók einnig til uppfærslu leikrita, málfunda og lestrarhringja – enda rak félagið bókasafn í kjallaranum að Kópavogsbletti 121 (síðar Digranesvegur 34, nú hús nr. 58 við Digranes-veg – húsið hefur nú verið rifið og nýtt byggt). Þar voru ennfremur haldnir fundir og sett upp leikrit, sum frumsamin en önnur tekin upp úr Barnablaði Æskunnar.

Knattspyrnufélagið Svanur.

Page 14: Húsið á hálsinum

bls. 14

Knattspyrnufélagið Svanur var stofnað 1. júní 1952 og enn er í vörslu undirritaðs ein fundargerðabók félagsins auk bókar úr bókasafni þess. Æfingasvæði félagsins til knattspyrnuiðkunar var ýmist á holtinu þar sem MK stendur nú eða uppi á Digranesheiði þar sem eitt sinn var ætlunin að Digraneskirkja risi.

Félagatal 1953.

Starfsemi Knattspyrnufélagsins Svans leið undir lok hægt og sígandi á árunum 1954-55 þegar unglingsárin færðust yfir pottormana. Einn félagsmanna a.m.k. hélt þó áfram knatt-spyrnuiðkun og komst í landsliðið, Reynir Jóns-son, þá sem Valsmaður.

FYRSTA PRAKKARASTRIKIÐ Það var fagurt haustveður á Digraneshálsinum að kvöldi fimmtudagsins 12. október 1950. Níu ára sveinstauli er á hraðferð heim til sín eftir Digranesveginum þegar hann verður var við mannaferðir á móts við Kópavogsskóla. Digurvaxinn maður hagar sér undarlega, fylgist með hópi unglinga á vellinum austan við skólann, leggst nánast á magann en sprettur svo allt í einu á fætur, skellir á sig húfu og nánast hleypur í átt til unglingahópsins – sem

tvístrast samstundis og hverfur. Sveinstaulinn sér þá að þarna er á ferð sjálfur hreppstjórinn og sveinstaulinn er orðinn vitni að fyrsta skráða prakkarastrikinu í Kópavogi.

Málavextir voru þeir að þetta fagra haustkvöld voru kvenfélagskonur með handavinnu-námskeið í hannyrðastofu skólans þegar nokkrum unglingum datt í hug að hrella þær lítið eitt. Bankað var á glugga hannyrðastof-unnar, draugaleg hljóð framkölluð, læðst inn í skólahúsið og ljós slökkt, yfirhafnir kven-félagskvennanna bundnar saman og annar óskundi framkvæmdur.

Þar kom að kvenfélagskonum var nóg boðið og gerðu þær hreppstjóra því aðvart. Þótt hann hefði ekki hendur í hári „vandræðaungling-anna” þá um kvöldið lét hann ekki þar við sitja, heldur leitaði hann til lögreglunnar í Hafnar-firði daginn eftir og var nánast öllum unglingum á Digraneshálsinum smalað saman og þeim ekið í lögreglubíl suður í Hafnarfjörð þar sem yfirheyrslur fóru fram – en sýslu-maður Gullbringu- og Kjósarsýslu var þá jafn-framt bæjarfógeti í Hafnarfirði. Yngsti ungling-urinn sem hreppstjóri og lögregla hand-sömuðu þarna var rétt 13 ára en aðrir voru eldri eða 15-17 ára. Þetta er fyrsta skráða prakkarastrikið í Kópavogi og jafnframt fyrsta dæmi um „unglingavandamál” þar.

Úr lögregluskýrslu.

Fulltrúa sýslumanns þótti rétt að senda skóla-stjóra Kópavogsskóla, Frímanni Jónassyni,

Page 15: Húsið á hálsinum

bls. 15

lögregluskýrslur sem teknar voru af hlutað-eigandi unglingum með beiðni um að skóla-stjóri áminnti unglingana – „en þeir munu flestir vera nemendur í skóla yðar” eins og segir í bréfi fulltrúans. Hins vegar munu fæstir þeirra hafa verið nemendur í Kópavogsskóla eða einungis tveir eða þrír enda var eldri deild, unglingadeild, þá nýtekin til starfa.

FÉLAGSLÍF KENNARA Kennarar við Kópavogsskóla stofnuðu með sér formlegt kennarafélag 13. mars 1953 þótt hópurinn væri þá frekar fáliðaður en hann fór þó ört vaxandi um þetta leyti í takt við öra fjölgun nemenda. Fyrsti formaður félagsins var kjörinn Magnús Bæringur Kristinsson, síðar yfirkennari (aðstoðarskólastjóri) og skólastjóri. Á öðru starfsári Kársnesskóla eða 31. október 1957 var stofnað sérstakt sameiginlegt kennarafélag beggja skólanna og var Böðvar Guðjónsson, eða Böðvar frá Hnífsdal eins og hann var gjarnan nefndur, kosinn fyrsti for-maður þess félags. Hins vegar störfuðu þó áfram kennarafélög innan hvors skóla fyrir sig. Hið sameiginlega kennarafélag starfaði hins vegar allt til ársins 1982 en þá var það lagt niður og svonefnt Kennarabandalag Kópavogs stofnað.

Stund milli stríða. Óli Kr. Jónsson og Guðni Jónsson.

Hlutverk Kennarafélags Kópavogsskóla var í upphafi einkum tvíþætt – að gæta hagsmuna kennara almennt en ekki síður að annast félagsleg samskipti innan kennarahópsins. Fljótlega skapaðist tiltekin hefð í félagslífi kennara sem endurspeglaðist í spila- og skemmtikvöldum, árlegri árshátíð og vor-ferðalögum. Þó mun fyrsta vorferðin ekki hafa verið farin fyrr en 1957 þegar Kársnesskóli hafði tekið til starfa. Mikil gróska færðist í félagslíf kennara í Kópavogi eftir að skólum fjölgaði á 7. áratugnum og þá fór starfsemi stjórnar Kennarafélags Kópavogs jafnframt að snúast í auknum mæli um málefni stéttarinnar og kjarabaráttu. Þrátt fyrir aukið vægi stéttar-baráttunnar viðgengust sameiginlegar árs-hátíðir kennara í Kópavogi allt fram á 9. ára-tuginn en lögðust þá af. Undirritaður sat í stjórn Kennarafélags Kópavogs um fjögurra ára bil á 7. áratug síðustu aldar, fyrst sem ritari en Óli Kr. Jónsson, síðar yfirkennari (aðstoðar-skólastjóri) og skólastjóri var þá formaður – og síðar sem formaður kennarafélagsins 1965-67.

Spila- og skemmtikvöld Kennarafélags Kópa-vogsskóla voru ávallt haldin í skólahúsnæðinu en árshátíðir annars staðar m.a. í Félagsheimili Kópavogs eftir að það reis, Sjálfstæðishúsinu sem stóð á svipuðum slóðum og Gerðarsafn er nú eða í húsnæði sem Alþýðuflokksfélag Kópa-vogs hafði yfir að ráða í Auðbrekku.

ÓLAFUR GUÐMUNDSSON

Page 16: Húsið á hálsinum

bls. 16

Atriði á árshátíð. Líklega á 7. áratugnum.

SIGURÐUR GRÉTAR GUÐMUNDSSON

FYRSTA LEIKSÝNING LEIKFÉLAGS

KÓPAVOGS VAR Í

KÓPAVOGSSKÓLA Í upphafi árs 1957 kom fámennur hópur saman, hópur sem átti það sameiginlegt að hafa áhuga á leiklist. Líklega liggur hvergi fyrir tæmandi upptalning á þeim sem þarna voru en vitað er um aðalhvatamenn þessa fundar. Þau voru: Inga og Erlendur Blandon, Magnús Bæringur Kristinsson, Sólveig og Gunnar Sand-holt, dóttir þeirra Sigríður Sandholt, Guðrún Þór, Auður Jónsdóttir, Þorbjörg Kristinsdóttir, Árni Sigurjónsson, Arnhildur Jónsdóttir, Sigurður Ólafsson, Bergsveinn Breiðfjörð, Björgvin Einarsson, Sveinn Halldórsson, Brynjúlfur Dagsson, Ágústa Björnsdóttir og Loftur Ámundason. Þetta er sá hópur sem hafði frumkvæðið að stofnun Leikfélags Kópa-vogs, en fljótlega komu fleiri inn í þennan hóp þegar gengið var endanlega frá stofnun félagsins. Ekki var um marga möguleika að ræða í Kópavogi til leiksýninga, eini kosturinn var Kópavogsskóli. Var þegar óskað eftir því við skólastjóra og sveitarstjórn að fá að sýna þar og það leyfi var veitt.

Kennslustofurnar á 2. hæð Kópavogsskóla, þrjár að tölu, voru þannig úr garði gerðar að hægt var að opna á milli þeirra og var þá til orðinn all rúmgóður salur eftir þeirra tíma mælikvarða. Stofan í vesturenda skólans var gerð að leiksviði. Til að tryggja það svo sem hægt var að allir leikhúsgestir sæju það sem fram fór var smíðaður pallur til upphækkunar þar sem sviðið var. Þar á bak við var aðstaða fyrir leikara til búningaskipta og förðunar og

þar biðu menn eftir að fara á svið eftir því sem leiksýningunni vatt fram. Þess má geta að á austurvegg þeirrar kennslustofu sem var fjær leiksviði var skápur á vegg.

Leikendur, leikstjóri og þeir sem unnu við Spanskfluguna, fyrsta leikrit sem Leikfélag Kópavogs

sýndi. Sýningin var á útmánuðum 1957 í Kópavogsskóla.

Á sunnudögum var skápurinn opnaður og blasti þá við trérista Ernst Bachmann af frelsaranum, altaristafla. Á sunnudögum fóru þar fram guðsþjónustur, enda var orgel í einu horninu. Þá var engin kirkja til í Kópavogi. Leikfélag Kópavogs valdi sem fyrsta verkefni sitt farsann „Spanskflugan” eftir Arnold og Back. Þessir tveir Þjóðverjar frá Leipzig sömdu fjöldann allan af försum um sína daga. Voru þeir taldir léttmeti sem ekkert sómasamlegt leikhús vildi sýna en flestir urðu þeir óhemjuvinsælir, bæði hérlendis sem erlendis. Leikstjóri var ráðin Ingibjörg Steinsdóttir. Hún hafði numið leiklist í Þýskalandi og leikið nokkuð með Leikfélagi Reykjavíkur og lék húsfreyjuna í fyrstu íslensku kvikmyndinni „Milli fjalls og fjöru” sem Loftur Guðmundsson, ljósmyndari, stjórnaði og fram-leiddi. Ingibjörg hafði mikla reynslu af því að vinna með leikfélögum víða á landsbyggðinni og að vinna með lítt vönum leikurum.

Þessu framtaki var vel tekið af bæjarbúum og urðu leiksýningar þó nokkrar auk þess sem farin var leikför um Suðurland og sýnt í Gunnarshólma, Hellu og Hveragerði.

Að smíði leiktjalda kom Trésmíðaverkstæðið Askur, aðalsmiður var Einar Óskarsson en faðir hans var Óskar Eggertsson, bústjóri á Kópa-vogsbúinu. Sigurður Kjartansson rafvirkja-

Page 17: Húsið á hálsinum

bls. 17

meistari, eiginmaður Arnhildar eins af stofn-endum og leikendum sá um ljósabúnað, ein-hvers staðar voru fengnir að láni fáir ljós-kastarar og Gunnar Hallgrímsson sá um förðun. Á milli stofunnar sem sviðið var í og þeirrar næstu voru sett upp tjöld svo hægt væri að draga frá og fyrir.

Sviðsbúnað, leikmuni og búninga varð að fjarlægja eftir hverja sýningu og hvorki á efri hæð né neðri hæð skólans var nokkur smuga til að geyma slíkt. Hvergi reyndist unnt að koma þessu dóti fyrir annars staðar en í kjallara undir skólanum austanverðum og var það talsverð vinna fyrir og eftir sýningar að ná í búnaðinn og koma honum þar aftur fyrir. Allt umstangið við sýningarnar hefði ekki verið framkvæmanlegt nema fyrir einstaka lipurð Hauks Helgasonar, húsvarðar, og konu hans Halldóru Guðmundsdóttur, skólahjúkrunar-konu, sem bjuggu í skólanum.

Haustið 1957 var ákveðið að setja upp annað leikrit í Kópavogsskóla. Það var íslenskt og hét Leynimelur 13 eftir Þrídrang, leikstjóri var Sigurður Scheving frá Vestmannaeyjum sem þá var fluttur í Kópavog. Þetta leikrit var samið á seinustu árum seinni heimsstyrjaldarinnar eftir að Ísland var hernumið. Það fjallaði um gífurleg húsnæðisvandræði í Reykjavík og frumvarp sem kom fram á Alþingi um að taka mætti leigunámi húsnæði hjá þeim sem hefðu of rúmt um sig og setja þar inn húsnæðislaust fólk. Augljóst var að þetta hefði bitnað fyrst og fremst á heldri borgurum sem margir hverjir áttu og bjuggu í stórum húsum, jafnvel nokkurra hæða. Aldrei varð þetta frumvarp að lögum en höfundarnir léku sér að þeim mögu-leika ef allt í einu flyttu mismunandi gerðir ein-staklingar inn á góðborgarann og templarann Madsen, klæðskerameistara. Þó höfundurinn

kallaði sig Þrídrang vissu allir hverjir þeir voru. Þetta voru forkólfar revíanna sem svo vinsælar voru á þessum árum, þeir Haraldur Á. Sigurðsson, Indriði Waage og Emil Thoroddsen.

Haustið 1958 sá Leikfélag Kópavogs hylla undir betri tíma þar sem Félagsheimili Kópavogs var þá í smíðum. En félagið fékk áframhaldandi inni í Kópavogsskóla til að æfa leikritið „Veðmál mæru lindar”, kínverskan ævintýra-leik sem Gunnar Róbertsson Hansen leikstýrði. Veðmál mæru lindar var síðan sýnt við opnun Félagsheimilis Kópavogs á útmánuðum 1959.

SIGURÐUR GRÉTAR GUÐMUNDSSON

einn stofnenda LK

BIRGIR ÁS GUÐMUNDSSON

KÓPAVOGUR Í ÁRDAGA -

STIKLAÐ Á STÓRU Allt sem ég set hér á blað er eftir minni og þar sem langur tími er liðinn er ef til vill eitthvað ónákvæmt. Þetta er eins og hugur minn segir mér.

Árið er 1939 og lítil fjölskylda er að koma sér fyrir í hlíðinni sunnan megin í Kópavogshálsi-num. Konan er úr sveit og vill ekki búa nærri sjó. Land er brotið og lítill sumarbústaður fluttur á Kópavogsblett númer 113, erfða-festuland til 99 ára. Jafnframt er hafinn undirbúningur að stærra húsi, heilsárshúsi

Page 18: Húsið á hálsinum

bls. 18

sem ennþá er búið í. Búið er að reisa lítið minkabú sem á að framfleyta fjölskyldunni í framtíðinni. Allt er frumstætt, ekkert rennandi vatn, enginn sími, ekkert rafmagn, engin verslun en hægt að fá mjólk á Kópavogsbúinu. Auðvitað kvartar enginn, þetta er sjálfvalið og enginn kippir sér upp við þetta. Þetta var sá veruleiki sem ég bjó við fyrstu æviárin í Kópa-vogi.

Svo rættist smám saman úr þessu öllu. Í fyrstu var vatn sótt í Kópavogslækinn og betra vatn í lindina í hvömmunum, rétt neðan við Hlíðar-veginn. Sú lind fraus reyndar á vetrum. Þá var önnur lind neðar nær Fífuhvammsvegi og Hafnarfjarðarvegi, þar fraus aldrei. Síðar var grafið fyrir brunni samkvæmt fyrirsögn sjóliða úr norska flughernum. Hann gekk um land föður míns með trjágrein og þar sem hún lyftist upp skyldi grafið, og það stóð heima. Upp frá því hafði heimilið úrvalsvatn árið um kring. Fólk reyndi að vera sér nóg um sem flesta hluti. Ég held að allir hafi verið með hænsni og auðvitað voru ræktaðar kartöflur, rófur, gulrætur, grænkál, rabbarbari og skarfa-kál. Sumir voru líka með svín og kindur. Við vorum með minka sem fólk óttaðist.

Í Kaldárseli vorið 1946. Fyrsta skólaferðalagið. Með hópnum er Guðmundur Eggertsson kennari og síðar

skólastjóri.

Öll mín barnaskólaár vorum við Kópavogsbúar fáir og dreifðir en allir þekktust, eða vissu hver af öðrum. Þó voru fjarlægðirnar miklar, frá ysta hluta Kársness og inn í Fífuhvamm, og langt fyrir suma að fara þegar skólahald hófst. Kennsla hófst veturinn 1945-46, fyrst á Hlíðar-vegi 9 sem þá var kallaður Svarti skóli þar sem húsið var klætt svörtum tjörupappa.

Skólastjórinn var Guðmundur Eggertsson sem síðar varð skólastjóri Kópavogsskóla. Nokkrar myndir eru til frá fyrsta skólaferðalaginu okkar í Kaldársel vorið 1946. Barnaskóli Kópavogs, eins og hann hét í byrjun, var á nokkrum hrakhólum fyrstu árin eins og skiljanlegt er því þetta var fátækur hreppur og allir tekjulágir og vinna oft stopul.

Árið eftir flutti skólinn á Digranesveg við Hafnarfjarðarveg. Sumir kölluðu hann þá Grænaskóla eftir iðjagrænum þakplötum hússins. Þar átti Guðmundur Matthíasson tónlistakennari og fyrsti organisti safnaðarins í Kópavogi síðar heima og einnig var þar verslunin okkar um nokkurra ára skeið. Þriðja og hálft fjórða ár skólastarfsins var svo í frekar lélegu húsnæði á Marbakka. Þurftum við skólafélagarnir oft eftir mikla rigningu að byrja á því að ausa vatni upp af gólfi áður en kennsla gat hafist. Enginn kippti sér upp við það.

En svo fór að draga til tíðinda. Samþykkt var á fjölmennum fundi sem haldinn var í bragga-skrípi sunnan megin við Álfhólsveg rétt við Hafnarfjarðarveg að reisa skóla í Kópavogi. Ég var ekki á sjálfum fundinum, enda bara barn, en ég var fyrir utan braggann og heyrði all-mikla háreysti sem barst út gegnum þunna bárujárnsveggina. Það fór ekkert á milli mála að ágreiningur var um málið.

Seinna frétti ég að hnakkrifist hefði verið um hvort ætti að byggja einn skóla eða fleiri, allt að fjórum skólum, og staðsetningin skipti máli. Einn skóli varð ofan á og mér liggur við að segja sem betur fer. Annað hefði verið óðs manns æði og algerlega ofvaxið fátæku hreppsfélagi. Hafist var handa um að reisa við Digranesveg allmyndarlega skólabyggingu sem er í dag í fullri notkun og byggt hefur verið við eftir auknum þörfum og kröfum. Ég var ekki mikið að sniglast í kringum bygginguna en við börnin fylgdumst með af tilhlökkun og miklar vonir voru bundnar við þetta nýja hús, ekki aðeins sem miðstöðvar skólastarfs heldur einnig sem félagsmiðstöðvar fyrir Kópa-vogsbúa.

Leiksvæði okkar sem bjuggum sunnan megin Kópavogsháls var mikið bundið við Kópavogs-lækinn og Kópavogsbúið, en það breyttist smám saman.

Page 19: Húsið á hálsinum

bls. 19

Kópavogsskóli

Kennsla hófst í Kópavogsskóla í janúar 1949 og það var mikill léttir fyrir mig að fá skólann í nágrennið en fyrir marga var mjög langt að sækja skólann. Sjálfsagt hefði verið gott að hafa skólana fleiri eins og sumir vildu en fjár-hagur leyfði bara einn skóla. Ekki minnist ég þess að nokkur hafi kvartað og ekki voru nem-endur keyrðir í skólann eins og nú tíðkast oft, jafnvel þótt um stuttar vegalengdir sé að ræða. Þegar skólinn var á Marbakka þurfti ég og fleiri að klungrast yfir holt og hæðir í hvaða veðri sem var en alltaf var mætt og heyrði til undantekninga ef einhver kom of seint.

Eins og áður var getið þá var Guðmundur Eggertsson fyrsti skólastjóri Kópavogsskóla en brátt kom í ljós að hann var orðinn veikur þegar hér var komið sögu og lést hann um vorið 1949. Þetta var fyrsta jarðarförin sem ég fór í. Vorum við nemendurnir uppi á palli í Fossvogskirkju, allir mjög hnuggnir og skildum illa lífsins gang. Þetta var afar erfitt og er mér enn í fersku minni 60 árum síðar. Við söknuðum Guðmundar skólastjóra. Hann var einstaklega ljúfur maður.

En áfram hélt skólastarfið og haustið 1949 var nýr skólastjóri kominn til starfa. Frímann Jónasson sem ættaður var úr Skagafirðinum en hafði verið skólastjóri að Strönd. Frímann reyndist góður skólastjóri og varð brátt hvers manns hugljúfi. Hann skipti sjaldnast skapi en var þó fastur fyrir og hafði sitt fram með hægðinni. Hann var góður kennari, hélt athygli nemendanna og átti næsta auðvelt með að halda uppi aga án mikillar fyrirhafnar.

Ég man nú ekki lengur í hvaða röð kennarar komu að kennslu þessi ár mín sem nemanda í Kópavogsskóla en báðir þeir Gunnar Guðmundsson, síðar skólastjóri Kársnesskóla, og Magnús Bæringur Kristinsson, síðar skóla-stjóri Kópavogsskóla, voru kennarar við Kópa-vogsskóla þennan fyrsta áfanga frá 12. janúar og til vors. Allir þessir þrír kennarar höfðu mikil áhrif á mig og kenndu mér allir. Gunnar kenndi okkur handavinnu. Magnús kenndi söng og leikfimi og sennilega dráttlist. Þeir reyndust góðir lærifeður og ég minnist þeirra

með miklu þakklæti. Auðvitað komu smám saman fleiri við sögu.

Kópavogsskóli varð brátt miðstöð hvers konar samkoma. Þar voru barnaguðsþjónustur hvern sunnudag allt frá byrjun og síðar guðs-þjónustur þegar sr. Gunnar kom til starfa. Böll voru haldin og ég seldi gosdrykki. Framboðs-fundir voru haldnir þar fyrir yfirfullu húsi og þar mættu allir sem vettlingi gátu valdið og þótti hin besta skemmtun enda mikið rifist. Ungmennafélagið hélt þarna fundi, þar var bókasafnið og skrifstofuaðstaða hreppsins að einhverju leyti. Þar sótti ég um vinnu í fyrstu unglingavinnu Kópavogs.

Það má því með sanni segja að Kópavogsskóli hafi iðað af lífi alla daga, jafnt virka daga sem helga og oft fram á rauða nótt.

Ekki var mikið um flokkadrætti og illindi milli okkar skólafélaganna en þó man ég eftir nokkrum atvikum. Þá voru tvær fylkingar, austur og vestur, og skiptust um Hafnar-fjarðarveg. Allt fór þó vel og lognaðist út af smám saman.

Andrúmsloftið í Kópavogsskóla var alltaf gott og ég held að okkur hafi öllum liðið vel í skól-anum okkar. Kópavogsskóli var mikil gæfa fyrir Kópavogsbúa.

Page 20: Húsið á hálsinum

bls. 20

Nemendur 12 ára bekkjar 1963. Umsjónarkennari Birgir Ás Guðmundsson.

Kennari við Kópavogsskóla

Sex árum eftir að ég útskrifaðist frá Kópa-vogsskóla hóf ég kennslu þar, nýútskrifaður kennari. Þar kenndi ég í fjögur ár en hélt svo til framhaldsnáms til útlanda og starfaði við allt annað næstu áratugina.

Þegar ég var kominn á eftirlaun kom ég svo aftur sem stundakennari.

Það var mikil upplifun og ég þakka fyrrverandi skólastjóra Ólafi Guðmundssyni fyrir að hafa gefið mér þetta tækifæri. Ég lifði í huganum öll árin frá 1949 sem nemandi og svo sem ungur kennari árin 1960-1964. Þetta urðu yndisleg rúmlega 5 ár sem stundakennari og kannski merkilegasta upplifunin að börnin voru eins og fyrir 40 árum. Ég á miklar og góðar minningar um Kópavogsskóla sem ég hef verið bundinn í 60 ár. Kom þangað þegar ég var á tíunda ári og verð 70 ára á afmælisári skólans.

Guð launi góð samskipti og vel alinn kálf.

BIRGIR ÁS GUÐMUNDSSON

BENEDIKT GUÐMUNDSSON

HVERNIG ÉG MAN

KÓPAVOGSSKÓLA Það var sko ekki slæmt að alast upp í Kópavogi í kringum 1970. Yfir vetrartímann var hægt að renna sér á skíðum á nokkrum stöðum í bænum og svo þegar sumarið kom þá var hægt að byggja sér kofa, spila fótbolta og stunda útiveru nánast hvar sem var.

Óbyggð svæði voru víða og dagsferðir í Smára-hvamm með viðkomu í kartöflugörðunum eða í sandgryfjunum voru forréttindi sem við krakkarnir höfðum á þessum árum.

Svo maður tali nú ekki um að sulla aðeins í „Skítalæknum”.

Kópavogsskóli hefur alltaf verið í mínum augum eitt af kennileitum bæjarins líkt og Kópavogskirkja. Ég man að fyrstu árin mín var skólinn tvísetinn, þá mætti einn hópur kl. 08.00 og hinn hópurinn kl. 14.00. Þá var kennt fram yfir kvöldmat og kennt á laugardögum.

Frímínútur.

Skólalóðin var vettvangur fyrir „brennó” og „síðastaleik” fyrstu árin þar sem kennarar voru ávallt hluti af leiknum í frímínútum. Stelpurnar sippuðu í horninu hjá íþróttahúsinu og við strákarnir hlupum út í fótbolta.

Page 21: Húsið á hálsinum

bls. 21

Taflmenn til forna. Veggteppi saumað út 1974 af stúlkum í 6. B undir handleiðslu Hjördísar

Þorleifsdóttur handavinnukennara.

Þessi ár voru mjög eftirminnileg. Frí-mínúturnar alltaf nýttar til hins ítrasta, góður fótboltavöllur var bakvið skólann og margar orustur háðar þar. Einnig var vinsælt að keppa í frímínútum í hlaupi, og var tekinn einn hringur í kringum skólann.

Nóg að gerast, engir gemsar eða ipoddar.

6. B vorið 1974. Höfundur greinarinnar er í öftustu röð, 5. frá hægri. Af 27 nemendum þessa bekkjar

hafa 11 átt, eða eiga, börn í Kópavogsskóla.

Þegar jólin nálguðust þá var farið í að skreyta alla glugga, ljósin kveikt yfir nóttina svo myndirnar skörtuðu sínu fegursta, sem er gert enn þann dag í dag.

Þessi minning minnir mig alltaf á þau góðu gildi sem Kópavogsskóli stendur fyrir.

Ég átti því láni að fagna að hafa úrvals kennara, Jónu Möller, sem er núna aðstoðar-stýra í Kópavogsskóla. Hún var vakin og sofin í velferð okkar öll þessi ár, og tókst að mynda í gegnum skólaárin í Kópavogsskóla tengsl við okkur nemendur sem við meira að segja höldum enn í dag.

Þegar ég svo fór í Menntaskólann í Kópavogi 1977 þá var MK í nýrri viðbyggingu við Kópa-vogsskóla. Er ég viss um að grunnurinn að öflugum Menntaskóla í Kópavogi hafi verið nálægðin við traustan Kópavogsskóla.

Það er líka ánægjulegt að segja frá því að sonur minn Sindri er að útskrifast í vor frá Kópavogsskóla og hefur á þessu ári verið for-maður Nemendafélagsins.

Í gegnum hans skólagöngu höfum við foreldrar hans upplifað mjög gott tengslanet og stuðning skólans við foreldra og nemendur.

Ég vil fyrir mína hönd og örugglega gamalla skólafélaga minna í Kópavogsskóla óska skólanum til hamingju með 60 ára afmælið og óska stjórnendum hans og nemendum alls hins besta í framtíðinni.

Kópavogi í apríl 2009

BENEDIKT ÞÓR GUÐMUNDSSON

Page 22: Húsið á hálsinum

bls. 22

LOVÍSA ÁRNADÓTTIR

ÁRIN MÍN Í KÓPAVOGSSKÓLA Fyrsti skóladagurinn. Ég var skelfingu lostin í bílnum á leiðinni að hitta kennarann, sannfærð um að mér yrði sagt að stúlka eins og ég hefði ekkert að gera í 6 ára bekk. Ég var nefnilega ekki búin að missa eina einustu tönn. Það þótti mér ekki hæfa mikilvægi dagsins og þeim þroska sem aðrir í bekknum hlytu að búa yfir. Ég var viss um að mér yrði sagt að fara heim og koma aftur þegar fyrsta tönnin væri farin. Síðustu skrefin að skólastofunni voru þung, niður dimma ganginn að einangraðri stofunni, en þar tók Signý kennari brosandi á móti mér. Hún virtist ekkert taka eftir því að ég var enn með allar barnatennurnar og bauð mig hjartanlega velkomna. Þungu fargi var af mér létt.

Þannig hófst 10 ára skólaganga mín í Kópa-vogsskóla.

Ég þekkti fljótlega hvern krók og kima í skól-anum, enda sá amma mín um daggæslu 6 ára barna og ræstingar og ég fékk stundum að vera með henni. Ég man hvað það var spenn-andi að koma inn á unglingadeildina og klifra um í gula fatahenginu. Það varð minna spenn-andi eftir að ég festi aðra nösina í einum snag-anum.

Fyrir utan skólann.

Í Kópavogsskóla var mikið af góðu starfsfólki og eftirminnilegu. Svo fáeinir séu nefndir; Guðmundur húsvörður sem ég kallaði afa og var alltaf svo góðlegur, Norma gangavörður sem reyndi að hafa hemil á okkur grisling-

unum, Árni Stef íslenskukennari sem gerði kennsluna ljóslifandi (og lék tré í einu jóla-leikritinu með glæsibrag) og Jóna Möller dönskukennari sem fékk strákana í bekknum til að skjálfa á beinunum. Þeir lærðu m.a.s. heima og allt! Það var líka eitthvað krúttlegt við það að María söngkennari hafði líka kennt pabba mínum. Hjá Maríu lærði ég til dæmis að koma fram á sviði og það þýddi ekkert að vera feimin. Ég lék Soffíu frænku í Kardimommu-bænum undir hennar stjórn og níu ára kom ég fram á jólaballi eldri bekkinga og söng „Hin fyrstu jól“. Það þótti þeim eldri fyndið.

What’s up sungið.

Nemendur í Kópavogsskóla á mínum samtíma voru nægjusamir, enda húsnæðið löngu sprungið utan af starfseminni. Öll mín skólaár voru skólaböllin haldin í skólastofum elstu bekkjanna. Það var bara opnað á milli, ljósin slökkt og diskókúlan sett í gang. Það var svo sannkölluð hátíð þegar „Búrið“ var vígt, enda þar komin langþráð aðstaða til að þeyta skífum. Okkur fannst mikið til þess koma.

Árgangurinn minn var nokkuð listrænn. Þar leyndist fjöldinn allur af frábærum hljóðfæra-leikurum og því eru skólaferðalögin sérstak-lega eftirminnileg. Þá var sungið hástöfum fram á miðjar nætur. Við vorum líka þekkt fyrir metnaðarfull skemmtiatriði á árshátíðum. Við skrifuðum okkar eigin gamanleikrit og settum þau upp og kennarar og annað starfsfólk skólans hvatti okkur áfram.

Það var alltaf eitthvað svo notalegt við Kópa-vogsskóla. Ég fann mig vel í þessu heimilislega umhverfi og sóttist eftir því sama þegar að því kom að fara í menntaskóla. Ef einhverjum finnst íþróttahúsið í Kópavogsskóla lítið, ætti

Page 23: Húsið á hálsinum

bls. 23

sá hinn sami að heimsækja íþróttahús Menntaskólans í Reykjavík!

Ég lauk grunnskólagöngu árið 1995. Yngri bræður mínir þrír hafa einnig lokið grunnskóla-ferli sínum frá Kópavogsskóla. Mér skilst að enn séu margir sömu kennarar við störf og

kenndu þegar ég var þar við nám. Nú kenna þeir börnum margra æskuvina minna úr Kópa-voginum og ég er viss um að þau muni eiga jafngóðar minningar úr Kópavogsskóla og ég.

LOVÍSA ÁRNADÓTTIR

Mynd unnin á þemadögum 2009 af nemendum í 4. KV