12
Framtíðarsýn D-listans til ársins 2018

Framtíðarsýn D-listans

Embed Size (px)

DESCRIPTION

 

Citation preview

Page 1: Framtíðarsýn D-listans

Framtíðarsýn D-listanstil ársins 2018

Page 2: Framtíðarsýn D-listans

2 Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ

Ágæti íbúi,Ég vil deila með þér þeirri sýn sem við sjálfstæðismenn höfum á bæinn okkar, Reykjanesbæ, í lok næsta kjörtímabils 2018. Við höfum lagt fram tillögur að framtíðarsýn í bæjarstjórn undanfarin ár í öllum málaflokkum og unnið markvisst eftir þeim. Nú er komið að uppskeru á mörgum sviðum. Við sjáum árangur í fræðslumálum, með nýrri þjónustumiðju fyrir aldraða á Nesvöllum, í tónlistarstarfi og með nýrri Hljómahöll, í ferðatækifærum og umhverfisbótum, í nýsköpun á Ásbrú og nú góðum atvinnutækifærum. Verkin tala. Íbúar vita að við skilum árangri.

Þekking, skýr sýn, heilindi, þor og þrautseigja eru leiðarljós sem ég hef hvatt til að við vinnum eftir. Við gefumst ekki upp þótt á móti blási og skilum verkum í hús, einu af öðru. Ef við eigum framtíðarsýnina saman – er líklegra að hún rætist.

Árið er 2018Meðaltekjur íbúa Reykjanesbæjar hafa hækkað vegna nýrra atvinnuverkefna og tekjur sveitarfélagsins hafa hækkað umfram landsmeðaltal. Íbúarnir hafa val um mun betur launuð störf.

Störf eru einnig fjölbreytt, bæði fyrir verkafólk og iðnmenntað fólk, við fiskeldi, þörungaræktun, störf í tækniþjónustu gagnavera, ferðaþjónustu, fullvinnslu sjávarafurða, iðnað í Helguvík, kísilvinnslu til sólarsellugerðar, álvinnslu, vinnu við vatnsútflutning til flóttamannabúða, tækniþjónustu, veitingahúsarekstur, hönnun og nýsköpun eða margvíslega þjónustu við ört stækkandi samfélag. Mun fleiri störf en áður eru í boði fyrir háskólamenntaða einstaklinga. Unga fólkið okkar snýr heim að loknu námi og fjölmargir nýir íbúar hafa flutt til bæjarins því hér eru stærstu tækifærin.

Eignastaða bæjarins hefur styrkst og skuldir minnka stöðugt í samræmi við áætlun.

Umhverfið allt ber með sér að lögð hefur verið áhersla á hreinleika og fegurð. Bæjarstemningin er jákvæð með mörgum skjóltorgum, veitingastöðum, kaffihúsum og skemmtilegum tækifærum til afþreyingar fyrir unga sem aldna.

Reykjanesbær er farinn að vekja athygli sem heilsubær vegna áherslu sveitarfélagsins á heilsu og heilbrigði. Heilsugæsla og sjúkraþjónusta hefur batnað

mikið á síðustu árum og bæjarfulltrúar koma með skilvirkum hætti að stjórnun stofnunarinnar. Þjónustumiðja fyrir aldraða á Nesvöllum blómstrar og aldraðir hafa sóst eftir að flytja í bæinn.

Menningin blómstrar því búið hefur verið að menningarhópum og sköpuð aðstaða til sýninga og tónleikahalds.

Reykjanesbær er orðinn vinsæll viðkomustaður ferðamanna til og frá landinu. Fallegt umhverfi og góð aðstaða fyrir ferðamenn í bænum sjálfum og úti á Reykjanesi laðar að, góð hótelþjónusta, ráðstefnuaðstaða í Hljómahöll, veitingastaðir, gönguleiðir með ströndinni og áhugaverðar sýningar um allan bæ.

Félagsþjónustan hefur breytt um hlutverk því flestir hafa fengið vinnu. Barnavernd og forvarnastarf einkenna vinnu félagsþjónustunnar, sem er orðin viðurkennd fyrir að hafa brugðist rétt við á erfiðum tímum og vinnur enn með jákvæðar og góðar lausnir í barnavernd, málefnum fatlaðra og félagslegri þjónustu.

Fjöldi ungmenna í íþróttum og viðurkenndu tómstundastarfi hefur vaxið vegna góðrar aðstöðu sem byggð hefur verið upp á löngum tíma.

Leikskólarnir og grunnskólarnir okkar halda áfram að raða að sér viður kenningum fyrir frábært starf, þar sem ánægja nemenda, sköpunarkraftur, heilbrigði og góður námsárangur eru í fyrirrúmi.

Árið 2018 fagnar Reykjanesbær fjölbreytileikanum í samfélaginu – hann tekur vel á móti nýjum íbúum og gestum okkar. Hann er þekktur fyrir slíka gestrisni og ánægjulegt viðmót bæði einstaklinga og umhverfis.

Ég vona að þú eigir þessa sýn með okkur og að við stöndum áfram saman við að láta hana verða að veruleika.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri

Ef við eigum framtíðarsýnina saman – er líklegra að hún rætist.

Page 3: Framtíðarsýn D-listans

3xdreykjanes.is

Við gefumst aldrei upp þótt á móti blási Grundvöllur að góðu samfélagi byggist á atvinnu. Þegar atvinnulífið er í blóma eru allar leiðir færar. Tekjur bæjarbúa aukast, tekjur bæjarsjóðs aukast, útgjöld vegna atvinnuleysis minnka og svigrúm sveitarfélagsins eykst til að styðja önnur mikilvæg samfélagsverkefni. Fjölmargt jákvætt hefur gerst í atvinnumálum á síðasta kjörtímabili þrátt fyrir að bið hafi verið á að stóru verkefnin í Helguvík verði að veruleika. Í því sambandi má nefna:

• Ásbrú – stærsta frumkvöðlasetur landsins• Stolt seafarm á Reykjanesi• Verne – gagnaver á Ásbrú• Nýtt gagnaver í byggingu við Patterson/Fitjar• Hjúkrunarheimilið á Nesvöllum• Codland, heilsuvöruverksmiðja á Reykjanesi• Keilir – menntasetur á Ásbrú• Hljómahöllin• Viðbætur við Flugstöð Leifs Eiríkssonar• Algalíf, þörungagróðurhús

Öll þessi verkefni hafa skapað hundruð starfa á síðustu árum en við ætlum að gera betur. Við höfum lagt í mikla fjárfestingu við undirbúning verkefna í Helguvík og sá undirbúningur mun skila sér á næstu árum.

Uppskeran er framundanVið erum sannfærð um að tími uppskeru í atvinnumálum er framundan. Átta stór atvinnuverkefni sem eru í undirbúningi í Helguvík eru ekki tilviljun heldur afrakstur margra ára baráttu sjálfstæðismanna fyrir góðum og vel launuðum störfum í þágu bæjarbúa. Þau verkefni sem nú eru í undirbúningi í Helguvík eru m.a.:

• Vatnsútflutningur til flóttamannabúða• Kísilver – United Silicon• Kísilver – Torsil• Hreinkísill • Álver Norðuráls• Grænn efnagarður – AGC• Tvö önnur verkefni sem eru skemmra á veg komin.

Með markvissum hætti er búið að skapa svo góða aðstöðu til atvinnusköpunar að enginn stór fjárfestir hugar að fjárfestingu í atvinnulífi á Íslandi án þess að skoða aðstæður í Helguvík.

Skýlaus krafa um hreinan og mengunarlítinn/-lausan iðnaðVið gerum þá eðlilegu og skýlausu kröfu að iðnaðarfyrirtæki í Helguvík uppfylli allar kröfur um hreinan iðnað og viðhafi besta búnað til mengunarvarna sem til er hverju sinni. Á því verður enginn afsláttur gefinn af hálfu Reykjanesbæjar. Við gerum ennfremur þá sjálfsögðu kröfu að opinberar eftirlitsstofnanir, sem eiga að gæta þess að mengunarvörnum sé sinnt og engin starfsemi verði í Helguvík nema að undangengnu lögmætu umhverfismati, tryggi rétt bæjarbúa til fullkominna loftgæða.

Algalíf, þörungagróðurhús.

Nýtt gagnaver í byggingu við Patterson.

Öll þessi verkefni hafa skapað hundruð starfa á síðustu árum en við ætlum að gera betur.

Page 4: Framtíðarsýn D-listans

4 Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ

Mörg verk að vinnaVið munum vinna áfram að framgangi nýrra og spennandi atvinnuverkefna innan Reykjanes bæjar sem skapa munu störf til framtíðar. Við munum leggja áherslu á:

• Uppbyggingu netþjónabúa og tengdrar starfsemi á sviði tölvutækni

• Björgunarmiðstöð fyrir Norðurslóðir á Ásbrú og önnur tengd verkefni

• Sjávarklasann – fullvinnslu sjávarafurða• Áframhaldandi uppbyggingu við starfsemi Landhelgisgæslunnar

á Ásbrú

Fjölskyldan – sumt breytist ekkiÞrátt fyrir miklar umbreytingar í samfélaginu er fjölskyldan áfram horn steinninn. Við sjálf­stæðis menn í Reykjanesbæ höfum sagt að hornsteinn stefnunnar eigi að vera hamingja og heilbrigði íbúanna. Það er grundvöllur þeirrar framtíðarsýnar sem við höfum unnið eftir undanfarin tólf ár.

Sérhver fjölskylda vill lifa saman í sátt og geta veitt sér lífsgæði. Hún þarf að búa við efnahagslegt sjálfstæði, búa í fallegu og öruggu umhverfi og geta sótt sér góða heilsugæslu þegar á þarf að halda. Hún vill búa í skemmtilegu samfélagi þar sem menningarviðburðir eru tíðir.

Við leggjum áherslu á að ef við byrjum snemma að vernda börnin og veita þeim bestu aðstæður til náms og þroska, þá er það besta veganesti sem við getum veitt þeim. Þess vegna höfum við verið í fararbroddi með nýjungar á Íslandi eins og umönnunargreiðslur, ókeypis uppeldisnámskeið, snemmtæka íhlutun í leikskólum og mikla áherslu á að öll börn eigi færi á að njóta hins besta til að mennta sig inn í framtíðina. Við viljum að fjölskyldan afli góðra tekna til að geta leyft sér að njóta lífsins, hver á sinn hátt. Þess vegna berjumst við fyrir betri menntun, betri þjónustu við eldri borgara, betri heilsugæslu, þægilegra umhverfi, skemmtilegri bæjarbrag og betur launuðum og fjölbreyttum störfum.

Hækkum umönnunargreiðslurVið munum hækka umönnunargreiðslur sem ganga beint til dagforeldra frá 15 mánaða aldri. Fram að því verði greiddur styrkur beint til foreldra eins og verið hefur, kr. 35 þúsund á mánuði, frá því að fæðingaorlofi lýkur og þar til barnið fær þjónustu dagforeldris.

Skólar í fremstu röðFramganga og árangur skólanna okkar í Reykjanesbæ á síðasta kjörtímabili hefur vakið verðskuldaða athygli um allt land. Eftir áralanga uppbyggingu skólamannvirkja og búnaðar innan skólanna var áherslan lögð á innra starf þeirra. Með samstilltu átaki skólaskrifstofu, skólastjórnenda, foreldra, kennara og annarra starfsmanna skóla, í gegnum „Framtíðarsýn Reykjanesbæjar“, hafa framfarir verið miklar. Við munum halda áfram á sömu braut á næsta kjörtímabili. Við teljum okkur geta náð enn betri árangri m.a. með því að efla íslenskt málaumhverfi tvítyngdra barna.

Morgun- og hádegisverður í grunnskólumMörg börn í Reykjanesbæ hefja daginn snemma t.d. með íþróttaæfingum. Því er brýnt að orkuþörf þeirra sé svarað þegar þau koma í skóla að morgni og viljum við bjóða upp á ókeypis hafragraut í morgunmat fyrir þau börn sem þess óska.

Skólamáltíðin er ódýrust í Reykjanesbæ þegar borin eru saman stærstu sveitarfélög landsins. Við munum áfram bjóða ódýrar og góðar hádegismáltíðir í grunnskólunum og tryggja gæði og heilbrigði þeirra. Gæða­ og ánægju kannanir

verða gerðar meðal nemenda m.a. með rafrænum kosningum og virkt samráð haft milli þjónustuaðila, foreldra og Ungmennaráðs Reykjanesbæjar um máltíðirnar.

Rafrænar kosningar um skólamáltíðirBörnum og unglingum er tamt að nýta tölvutækni í leik og starfi. Við ætlum að opna fyrir að þau kjósi rafrænt um holla matseðla og hafi þannig áhrif á val máltíðar í skólunum. Slíkt eflir lýðræðisvitund meðal grunnskólabarna í bænum, undirbýr þau við að taka eigin ákvarðanir og vekur upp ábyrgðartilfinningu meðal þeirra.

Orkuboltum á öllum aldri bjóðist morgunnæring og hádegisverður.

Page 5: Framtíðarsýn D-listans

5xdreykjanes.is

Spjaldtölvur í kennsluReykjanesbær fer fyrir sveitarfélögum í spjaldtölvuvæðingu innan grunnskólanna. Nú þegar hefur einn árgangur í öllum skólum fengið spjaldtölvur til afnota og munum við halda áfram að bæta við einum árgangi á hverju ári á unglingastigi. Spjaldtölvunotkun innan grunnskólanna gerir allt í senn:

• Eykur námsáhuga unglinga• Nútímavæðir kennsluhætti• Minnkar burð á bókum• Bætir aðgengi að upplýsingum• Jafnar aðstöðumun

StarfskynningarVið viljum bæta aðgengi unglinganna okkar að atvinnulífinu og þeim möguleikum sem eru í boði að námi loknu. Hluti af því er að efla starfskynningar nemenda með tímabundinni þátttöku í atvinnulífinu, halda áfram árlegum starfskynningum og auka upplýsingar um námsframboð á framhalds­ og háskólastigi.

Forvarnir á unglingastigiVið höfum náð einum besta árangri á landinu í forvörnum gegn áfengi, fíkniefnum og tóbaksnotkun unglinga. Við megum aldrei sofna á verðinum. Við viljum halda áfram að auka forvarnir t.d. á sviði áfengis­ og vímuefna svo og kynfræðslu m.a. í samráði við ungmennin sjálf. Ungmennaráð Reykjanesbæjar hefur sett fram áherslur sínar í þessum efnum um hvar og hvernig best sé að koma forvarnar fræðslu á framfæri við ungmennin. Við fylgjum þeim.

ForeldrastarfStór hluti af þeim góða árangri sem náðst hefur í leik­ og grunnskólum á síðustu árum er að þakka góðu samstarfi skóla og foreldra. Við ætlum að vinna áfram að margvíslegu samstarfi foreldrafélaga, skólaskrifstofu og starfsmanna skóla til að styðja við skólastarfið og ná stöðugt fram betri árangri í námi barnanna okkar, jákvæðum skrefum í forvarnarmálum og öðru sem öflugt foreldrastarf getur komið til leiðar.

Sveigjanlegri opnunartími leikskóla Við viljum kanna áhuga foreldra á því að hafa sveigjanlegri opnunartíma leikskóla vegna mikils fjölda íbúa í vaktavinnu.

Endurvekjum frístundarútuna Reykjanesbær starfrækir frístundaskóla í öllum grunn­skólum bæjarins fyrir nemendur í 1. til 4. bekk. Við ætlum að leggja enn frekari áherslu á að íþróttaæfingar geti farið fram á starfstíma skólans og kanna hvort unnt sé að endurvekja „frístundarútuna“ þar sem börnum var ekið frá skóla og á æfingar. Frístundaskólinn á að vera sveigjanlegur og faglegur og sniðinn að þörfum barna sem hann sækja.

Fjölbreytni í skólastefnum Í dag eru fjórir af tíu leikskólum í Reykjanesbæ einkareknir en með rekstrar samning við Reykjanesbæ. Við viljum auka fjölbreytni við rekstur og leita leiða til að bjóða upp á ný grunnskólaúrræði í samstarfi við rekstraraðila á því sviði, s.s. Hjallastefnuna o.fl.

Sköpum tónlistarmenn Með tilkomu Hljómahallar fengu nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar bestu aðstæður til tónlistarnáms sem í boði eru hérlendis. Við munum styrkja starf skólans og auka framboð náms sem þar verður í boði. Við ætlum áfram að skapa jarðveg sem gefur af sér færustu og frægustu tónlistarmenn landsins.

Menning er lífsstíll Framtíðin býr í nýjum kynslóðum og við viljum að börnin njóti þess besta. Tónlistarskólinn verður áfram rekinn af metnaði og Listaskóli barna gerður að heils árs skóla með áherslu á myndlist og leiklist. Dansskólar fái einnig sitt rými og sinn stuðning. Listnám verði tengt hvatagreiðslum eins og aðrar tómstundir barna.

Page 6: Framtíðarsýn D-listans

6 Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ

Menning er einnig atvinna Menning skipar sífellt stærra hlutverk í atvinnusköpun landsmanna. Við munum áfram vinna að framgangi Víkingaheima og Duushúsa sem segla í ferðaþjónustu. Hljómahöllin hefur nú bæst við sem áhugaverður áningastaður ferðamanna auk þess að vera fyrirmyndar ráðstefnuhús. Þjónustusamningar verða áfram gerðir við menningarhópa og þeim veitt tækifæri til listsköpunar.

Gömlu húsin endurgerðVið höldum áfram að endurgera gömlu húsin og tökum Fischershús, Gömlu búð og Svarta pakkhúsið fyrir á næsta kjörtímabili ásamt því að ljúka við Safnamiðstöðina í Ramma.

Hátíð í bæMeð samstilltu átaki íbúa hefur okkur tekist að gera Ljósanótt að hausti að einni stærstu fjölskylduhátíð landsins. Á sama hátt er barnahátíð að vori að verða stórviðburður á meðal fjölskylduhátíða landsins. Við munum leggja áherslu á að viðhalda þessum hátíðum auk viðburða á borð við List án landamæra, Safnahelgi á Suðurnesjum, þrettándann, öskudaginn, sjómannasunnudaginn og 17. júní. Leitað verður samstarfs við aðra aðila með a.m.k. tvær tónlistarhátíðir á ári.

Markaðssetjum bæinn Reykjanesbær er í sérflokki þegar horft er til aðstöðu og verkefna tengdum menningu og ferðaþjónustu. Átak verði gert í að kynna þessi mál fyrir innlendum og erlendum gestum um leið og bæjarbúar geta stoltir notið þessara sömu staða m.a. með gerð safnakorta. Farið verði í samstarf við ferðaþjónustuaðila á svæðinu með sölu og kynningu á þeim stöðum sem nú þegar eru tilbúnir.

Barnahátíð að vori og Ljósanótt að hausti verði stórhátíðirnar.

Við ætlum áfram að skapa jarðveg sem gefur af sér færustu og frægustu tónlistarmenn landsins.

Page 7: Framtíðarsýn D-listans

7xdreykjanes.is

Sjálfboðaliðar í velferðarmálumVíða í kringum okkur er unnið öflugt sjálfboðastarf í félagasamtökum. Við viljum ráða verkefnastjóra sem hefur yfirsýn yfir það sem unnt er að gera í sjálfboðastarfi í Reykjanesbæ á sviði umhverfis­, félags­ og velferðarmála.

Fjölskyldusetur Fjölskyldusetrið er samhent aðgerð samfélagsins í Reykjanesbæ til að fagaðilar nái til allra foreldra og barna með jákvæðri fræðslu og aðstoð allt frá fæðingu barns fram á fullorðinsár.

Í setrinu eru dregin saman þau fjölmörgu verkefni sem nú þegar eru unnin á vegum Reykjanesbæjar og snúa að fræðslu barna, unglinga og foreldra. Með því að skapa þeim samastað er um leið lögð áhersla á að samþætta þau betur og mynda heildarsýn á þær áherslur sem skipta máli.

Fjölskyldusetrinu hefur verið komið fyrir í einu elsta og fegursta húsi Reykjanesbæjar sem hefur frá upphafi verið tengt fræðslu og uppeldismálum.

Lausnir í húsnæðismálumSjálfstæðismenn leggja áherslu á að leyst verði úr húsnæðisvanda margra íbúa í kjölfar efnahagskreppunnar. Rætt verði við aðila sem búa yfir lausu húsnæði, s.s. Íbúðalánasjóð, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar og banka og leitað nýrra lausna strax á þessu sumri.

Dagar fjölmenningarVið fögnum fjölbreytileikanum í samfélaginu um leið og við tökum vel á móti gestum okkar og þeim sem vilja búa í okkar samfélagi. Fjölbreytileikinn laðar fram skemmtilega bæjarstemningu þar sem menn miðla af þekkingu sinni og menningarheimi hver til annars.

Styðjum þá sem minna mega sínReykjanesbær hefur á undanförnum árum verið í forystu nýrra leiða við að styðja einstaklinga sem búa við skerta möguleika í lífinu m.a. vegna líkamlegra, andlegra eða efnahagslegra hafta. Við munum áfram styðja við verkefni sem snúa að slíkum hópum s.s. Björgina, SÁÁ, Þroskahjálp, Hæfingarstöðina, Lund, Virkjun o.fl.

Íþrótta- og tómstundabærinn Á síðasta kjörtímabili náðust margir góðir áfangar við uppbyggingu aðstöðu til íþrótta­ og tómstundaiðkunar. Sérstaklega var ánægjulegt að geta aukið stuðning við innra starf íþróttahreyfingarinnar á þessu ári. Í málaflokknum bætast stöðug við ný verkefni sem ábyrgt samfélag þarf að takast á við.

Samstarf við íþróttahreyfingunaVið ætlum að kalla eftir áherslum frá öllum íþróttafélögum í bænum um uppbyggingu mannvirkja til næstu tíu ára og forgangsröðun þeirra. Á næstu árum munum við m.a.:

• Finna judo, taekwondo og hnefaleikum framtíðaraðstöðu til iðkunar.

• Ljúka frágangi æfingasvæða fyrir knattspyrnu aftan við Reykjaneshöll með salernis­ og búningaaðstöðu.

• Útbúa geymsluhúsnæði við knattspyrnuvöllinn við Hringbraut.

• Ljúka framkvæmdum við gamla malarvöllinn í samstarfi við Keflavík, íþrótta­ og ungmennafélag.

• Setja körfuknattleiksvöll við Heiðarskóla.

• Kanna nýjar leiðir í aðstöðu fyrir ört stækkandi fimleikafélag.

• Skoða stækkun íþróttahússins í Njarðvík.

Finna judo, taekwondo og hnefaleikum framtíðaraðstöðu til iðkunar.

Page 8: Framtíðarsýn D-listans

8 Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ

Rekstrar- og þjónustusamningarReykjanesbær hefur á síðustu árum gert fjölmarga rekstrar­ og þjónustusamninga við íþrótta­, menningar­ og tómstundafélög í bænum og tryggt þannig starfsemi þeirra og fjölbreytni þeirrar starfsemi sem í boði er fyrir íbúa. Við viljum halda áfram gerð slíkra samninga m.a. um rekstur íþróttasvæða við ákveðnar deildir og félagasamtök, undir eftirliti sveitarfélagsins.

Hærri styrkir til umönnunar, íþrótta og tómstundaEftir bankahrunið 2008 þurfti Reykjanesbær að grípa til aðhaldsaðgerða sem m.a. leiddu til þess að árið á eftir var Hvatagreiðslum hætt tímabundið. Við gátum sem betur fer tekið upp þráðinn að nýju á árinu 2013 og jafnframt bætt nokkuð í upphæðina á árinu 2014 sem nú er 10.000 kr. á hvert barn. Við munum halda áfram að leita leiða til að lækka kostnað foreldra við íþróttir og tómstundir barna m.a. með hækkun íþrótta­ og tómstundastyrkja. Við munum einnig stuðla að því að umönnunargreiðslur hækki strax á næsta ári.

Ungmennaráð – 88 húsiðÁ síðasta kjörtímabili setti bæjarstjórn á fót sérstakt Ungmennaráð sem skipað er fulltrúum ungmenna úr skólum og tómstundastarfi víðs vegar um bæinn. Ráðið hefur haldið fundi með bæjarstjórn og verið til ráðgjafar um fjölmörg verkefni sem unga fólkið telur að leggja eigi áherslu á í bænum. Ungmennagarðurinn umhverfis 88 húsið á Hafnargötunni er dæmi um vel heppnað samstarf Ungmennaráðs og bæjarstjórnar. Við ætlum að hlúa vel

að þessu samstarfi og því góða starfi sem fram fer innan 88 hússins og fá fleiri samstarfsaðila til verksins á borð við Nemendafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja (NFS).

Íbúalýðræði óvíða meira Fá sveitarfélög hafa gengið jafn langt og Reykjanesbær í íbúalýðræði og aðgengi íbúa að stjórnsýslunni. Árlega eru haldnir íbúafundir með bæjarstjóra í öllum hverfum, sérstök þing og opnir kynningarfundir eru haldnir um einstaka málaflokka eins og íþróttamál, fjölskyldumál og

skipulagsmál, sérstakt vefsvæði gerir íbúum kleift að senda ábendingar um það sem betur má fara í umhverfismálum og nýr íbúavefur opnar möguleika fyrir íbúa að leggja fram tillögur og hugmyndir til nefnda og bæjarstjórnar.

Íbúakosningar – rafrænarMeð nýjum sveitarstjórnarlögum og breytingum sem bæjarstjórn Reykjanesbæjar gerði á samþykktum sínum er mögulegt að kalla eftir íbúakosningu um tiltekin mál sem til umfjöllunar eru í bæjarstjórn. Við munum halda áfram

Ungmennagarðurinn umhverfis 88 húsið á Hafnargötunni er dæmi um vel heppnað samstarf Ungmennaráðs og bæjarstjórnar.

Page 9: Framtíðarsýn D-listans

9xdreykjanes.is

að þróa vef Reykjanesbæjar í þá átt að nýta tæknina til að leita eftir áliti og skoðunum bæjarbúa á tilteknum þáttum í rekstri sveitarfélagsins og hefja rafrænar kosningar um ákveðin málefni sem verði bæjarstjórn til ráðgjafar í ákvörðunartöku.

Skuldaviðmiði náð á sex árum Reykjanesbær er með eignamestu sveitarfélögum landsins en um leið eru skuldir of háar. Samkvæmt nýjum sveitarstjórnarlögum höfum við átta ár til að ná settum viðmiðum um hlutfall skulda af tekjum. Þessu viðmiði munum við ná á næstu sex árum miðað við núverandi rekstraráætlun og þjónustustig. Við teljum ekki skynsamlegt að skerða stórlega þjónustu og stuðning við íþrótta­, menningar­ og tómstundastarf, draga úr verkefnum sem ekki eru lögbundin eins og almennings­samgöngum eða stuðningi við barnafólk, bara í þeim tilgangi að ná skulda viðmiðunum tveimur árum fyrr. Við munum áfram sjá til þess að rekstur sveitarfélagsins sé hagstæður í samanburði við önnur sveitarfélög og aðhalds sé gætt um leið og við bjóðum íbúum okkar upp á góða og vandaða þjónustu.

Meirihluti í HS Veitum Sjálfstæðismenn tryggðu að Reykjanesbær eignaðist meirihlutann í HS Veitum og hefur það verið stefna sjálfstæðismanna að halda þeirri stöðu. Félagið er vel rekið og skilar eigendum sínum góðum arði. Við munum áfram standa vörð um eign okkar í Hitaveitunni. Ekki verða gerðar breytingar á eignarhlut okkar í félaginu á næsta kjörtímabili.

80% eignarhluti í Fasteign Reykjanesbær á nú tæplega 80% eignarhlut í Eignarhaldsfélaginu Fasteign sem heldur utan um skóla, íþróttahús og fleiri mannvirki. Miklar eignir félagsins og háar skuldir koma fram í ársreikningi Reykjanesbæjar. Við eignarhald í framtíðinni munum við sem fyrr fara þær leiðir sem hagstæðastar eru hverju sinni fyrir rekstur sveitarfélagsins.

Gjaldfrjálst í Kölku Þrátt fyrir að Reykjanesbær eigi um 65% í Sorpeyðingarstöð Suðurnesja hafa sameigendur okkar komið í veg fyrir að breytingar verði gerðar á gjaldtöku í Kölku. Við teljum að einstaklingar eigi ekki að greiða fyrir skil á sorpi á gámaplönum Kölku enda greiða íbúar hátt gjald fyrir sorphirðu og sorpeyðingu með fasteignagjöldum. Við munum áfram leggja mikla áherslu á breytingar í þessa átt á næsta kjörtímabili.

Heilsubærinn okkarMeð göngu­ og hjólastíga um allan bæ, hreyfigarða og strandleiðina er aðstaða til útivistar eins og best verður á kosið. Þegar við bætist áhugi leik­ og grunnskóla á heilsu og hreysti vantar ekki mikið upp á að við séum sannkallaður heilsubær. Eldri borgarar hafa nýtt sér Reykjaneshöll til heilsuræktar og nú viljum við stíga skrefinu lengra og fá fyrirtækin í bænum til liðs við okkur við að gera bæinn að

þekktum heilsuræktarbæ. Við höfum sett fram áætlun um „heilsueflandi samfélag“ þar sem byrjað er að greina stöðuna og ákvörðun tekin um hverju skal breyta og hvert skal stefna.

Fallegur bærVistvænt, hlýlegt umhverfi verður í fyrirúmi. Opin og græn svæði verða áfram áherslumál í fegrun og má þar nefna Fitjar, Strandleið og Gróf. Aukinn gróður mun gera bæinn okkar enn hlýlegri og fallegri. Hvergi verður slegið af í viðhaldi gatna og umhirðu opinna svæða og áfram verður haldið með „grænu byltinguna“ með niðursetningu trjáa og annars gróðurs.

Smábátahöfnin hefur hlotið umhverfisviður kenninguna Bláfánann og sex leikskólar og þrír grunnskólar hafa hlotið

umhverfis viðurkenninguna Grænfánann. Frárennslismál eru víðast hvar komin í gott horf en áfram verður unnið í þeim málum í samræmi við verkefnaáætlun.

Skipulag til framtíðarSkipulagsmál munu taka mið af því að þróa vistlegt og fallegt umhverfi fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Horft er til frekari deiliskipulagsvinnu svo sem Hlíðahverfis sem er ákjósanlegt og vel staðsett svæði til uppbyggingar. Skipulag mun einnig taka mið af þróun í atvinnulífi. Reykjanesbær er ákjósanleg staðsetning fyrir ferskvinnslu sjávarafurða og hugað verður að skipulagi fyrir slíka starfsemi á svæðum við hafnir Reykjanesbæjar svo ný fyrirtæki geti byggt upp starfsemi sína í samræmi við kröfur nútímans.

Komum að rekstri HeilbrigðisstofnunarÞví miður er forsvar Heilbrigðisstofnunar Suður­nesja í höndum ríkisins en ekki Reykjanes bæjar. Við viljum hækka þjónustustig heilsu gæsl unnar þannig að bið eftir sjálfsagðri þjónustu verði styttri og í samræmi við það sem best gerist á höfuðborgarsvæðinu. Að okkar mati verður þetta einungis gert með því að Reykjanesbær komi að gerð framtíðarsýnar og markmiðasetningu fyrir stofnunina. Við minnum á þann árangur sem við höfum náð með skýrri sýn og markvissum vinnubrögðum í skólamálum, íþróttamálum, umhverfismálum, menningarmálum og málefnum eldri borgara. Við viljum vinna á sama hátt að uppbyggingu heilbrigðisþjónustu í bænum okkar. Við viljum koma að rekstri heilbrigðisstofnunar t.d. með langtíma þjónustusamningi við ríkið eða með sérstakri svæðisstjórn sem væri í höndum

heimamanna. Þannig teljum við að mætti auka gæði þjónustunnar, stytta biðtíma og auðvelda aðgengi íbúa að læknum og hjúkrunarfólki. Við munum spyrja íbúa Reykjanesbæjar um afstöðu þeirra til málsins.

Page 10: Framtíðarsýn D-listans

10 Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ

Hjóla- og gönguleiðir Reykjanesbær er hluti af Reykjanes jarðvangi, áhersla verður lögð á merkingar er lúta að tengingum við jarðvanginn og merkingum á náttúruperlum. Vegvísar munu vekja athygli innlendra og erlendra ferðamanna á þjónustuþáttum í bænum.

Áfram verður unnið stígagerð með meiri áherslu á hjólreiðar. Lokið verður við að tengja saman alla stíga þannig að heild skapist í göngu­ og hjólaleiðum bæjarins. Einnig að tengja Sjávargötu og Fitjar á Strandleiðinni og með því verður nær 10 km gönguleið með ströndinni í Reykjanesbæ. Ný tenging við Flugstöð Leifs Eiríkssonar er í farvatninu og með henni verður göngu­ og hjólastígur lagður að þessum stærsta vinnustað við Reykjanesbæ.

Við ætlum að ljúka við gerð göngustíga og gangstétta í nýjustu hverfum sveitarfélagsins s.s. Dalshverfum 1 og 2 og Ásahverfi og kanna möguleika á gerð göngustígs að golfvellinum í Leiru.

Skrúðgarðarnir góðuÁ síðustu árum hefur skrúðgarðurinn í Keflavík tekið stakkaskiptum. Við viljum halda áfram að gera garðinn fallegan og glæða hann lífi með því að skapa þar leikaðstöðu fyrir börn á öllum aldri. Afgirt leiksvæði fyrir yngstu börnin verður sett upp á árinu 2015. Hreyfitæki í skrúðgarðinum í Njarðvík hafa fengið góðar viðtökur. Garðurinn er gróðursæll og vinalegur og áfram verður unnið að fegrun hans.

Hafnargatan í nýju ljósiTíu ár eru liðin síðan Hafnargatan var endurnýjuð frá grunni og er kominn tími til að taka næsta skref. Við viljum búa til fallega götumynd með litum, gróðri, torgum og lýsingu sem unnið verður eftir á næstu árum í samvinnu við húseigendur. Þannig sköpum við skemmtilega bæjar stemningu. Um leið þurfum við að huga að bakhlið húsanna sem snúa að Ægisgötu og bæta ásýnd þeirra.

ÆvintýragarðurListrænn ævintýragarður við Hafnargötu verður hluti af fegrun götunnar og einnig verða sett upp útilistaverk við strandlengjuna og víðar. Í Höfnum verður lokið við frágang á fornminjasvæðinu.

Við viljum búa til fallega götumynd með litum, gróðri, torgum og lýsingu sem unnið verður eftir á næstu árum í samvinnu við húseigendur.

Page 11: Framtíðarsýn D-listans

11xdreykjanes.is

Strætó á kvöldin og um helgarBreytingarnar sem við höfum gert á strætó mælast mjög vel fyrir. Við ætlum að halda áfram að þróa samgöngukerfi strætó og smám saman að auka þjónustu við bæjarbúa. Við þurfum að fjölga strætóferðum um helgar, fjölga kvöldferðum, bæta við sunnudagsferðum og umfram allt að tengja strætó við flugstöðina.

„Upplýsingatorg“ um gróðurræktÁ síðustu árum höfum við séð að vel er hægt að rækta tré og annan gróður í Reykjanesbæ. Við viljum skapa íbúum betri tækifæri og aðstöðu til að rækta upp svæði og gróðurreiti í bænum. Við ætlum að opna upplýsingatorg fyrir íbúa, húsfélög, félagasamtök og aðra áhugasama aðila sem geta leitað svara við gróðurtengdum spurningum og ekki síður veitt svör. Þar skapast tækifæri fyrir áhugasama sjálfboðaliða og sérfræðinga í gróðurrækt, t.d. í samstarfi við Skógræktarfélag Suðurnesja, að veita ráð og setja fram tillögur um gróðurverkefni.

Tjaldsvæði í GrófVið ætlum að klára að útbúa aðstöðu fyrir húsbíla, hjól­ og fellihýsi, tjöld og tjaldvagna við Grófina en þar eru allir innviðir til staðar, s.s. salerni og rafmagn. Um leið viljum við kanna hvort mögulegt sé að útbúa fleiri svæði í sveitarfélaginu sem gætu nýst sem áfangastaðir ferðamanna sem þannig gista.

Innkomur sem aðdráttaraflNýjar innkomur í bæinn sem hlaðnar eru grjóti af Reykjanesi hafa þegar vakið athygli sem skemmtileg bæjarhlið. Við munum halda áfram gerð þeirra að Ásbrú, við Hafnarveg og inn í Hafnir. Við þurfum að auka merkingar fyrir ferðamenn í bænum og eru hliðin mikilvægur þáttur í því.

Með göngu- og hjólastíga um allan bæ, hreyfigarða og strandleiðina er aðstaða til útivistar eins og best verður á kosið.

Page 12: Framtíðarsýn D-listans

Vinnum áfram – klárum málin

Árni Sigfússonbæjarstjóri

Jóhann Snorri Sigurbergssonforstöðumaður

Þórarinn Gunnarssonstúdent og formaður ungra

sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ

Gígja Sigríður Guðjónsdóttiruppeldis­ og

menntunarfræðingur

Magnea Guðmundsdóttirupplýsingafulltrúi og bæjarfulltrúi

Una Sigurðardóttirsérfræðingur

Anna Sigríður Jóhannesdóttirsálfræðinemi

Grétar Guðlaugssonbyggingafræðingur

Böðvar Jónsson,framkvæmdastjóri

og bæjarfulltrúi

Ísak Ernir Kristinssonstúdent

Rúnar Arnarsonbankastarfsmaður

Einar Þórarinn Magnússonskipstjóri og bæjarfulltrúi

Baldur Þórir Guðmundssonútibússtjóri og bæjarfulltrúi

Guðmundur Péturssonframkvæmdastjóri

Haraldur Helgasonmatreiðslumeistari

Ragnheiður Elín Árnadóttiralþingismaður og ráðherra

Björk Þorsteinsdóttirskrifstofustjóri og bæjarfulltrúi

Hildur Gunnarsdóttirlögfræðingur og

varaformaður SUS

Sigrún Inga Ævarsdóttirlögfræðingur og kaupmaður

Ingigerður Sæmundsdóttirframhaldsskólakennari

Hanna Björg Konráðsdóttirviðskiptafræðingur og

meistaraprófsnemi í lögfræði

Erlingur Bjarnasonrekstrarstjóri

Vinnum áfram