14
Ársskýrsla 2016

Ársskýrsla 2016

  • Upload
    others

  • View
    10

  • Download
    0

Embed Size (px)

Citation preview

Page 1: Ársskýrsla 2016

Ársskýrsla 2016

Page 2: Ársskýrsla 2016

2

Ávarp formanns og deildarstjóra

Nú er annað ár frá sameiningu Rauða krossins í Hafnarfirði og Garðabæ liðið undir lok. Sameining deildanna hefur skilað stærri og betri heild og hafa umsvif deildarinnar aukist jafnt og þétt yfir árið. Þetta starfsár deildarinnar var bæði líflegt og viðburðaríkt. Farið var af stað með verkefnið Heilahristingur í Hafnarfirði, en það verkefni hefur verið rekið í Garðabæ síðustu misseri. Unnið var markvisst að því að efla sjálfboðaliðaumsýslu og á sú vinna eftir að skila sér næstu árin. Samstarf á milli deilda á höfuðborgarsvæðinu var aukið og mun vonandi skila sér í enn betri og sterkari einingu innan Rauða krossins. Í lok árs sagði Hildur Tryggvadóttir Flóvenz upp störfum. Hún var fyrsti deildarstjóri sameinaðra deilda og hafði áður verið framkvæmdarstjóri yfir báðum deildum. Hildur hefur unnið mikið og gott starf og stýrt starfinu styrkri hendi á miklu gróskutímabili. Við viljum nýta tækifærið og þakka henni innilega fyrir góð störf í þágu Rauða krossins og óskum henni velfarnaðar í framtíðinni. Deildin bætti við starfsmönnum í verkefni tengdum málefnum hælisleitenda. Fjöldi hælisleitenda í umsjón Rauða krossins um það bil þrefaldaðist á árinu og samhliða því stækkaði verkefnið hratt. Deildin hefur sinnt félagsstarfi og heimsóknum til hælisleitenda, heildarfjöldi heimsókna og viðburða á árinu rúmlega tvöfaldaðist frá árinu 2015. Fjöldi sjálfboðaliða í verkefninu jókst samhliða auknum verkefnum og má segja að árið hafi einkennst af stöðugri aðlögun að breyttum aðstæðum.

Önnur verkefni deildarinnar gengu vel. Þar má nefna að í heimsóknarvinaverkefni var unnin skýrsla sem sýndi skýrt fram á mikilvægi þess verkefnis og hversu áhrifaríkt það er fyrir nærsamfélagið. Ekki má gleyma að einvera og einmannaleiki eru raunveruleg vandamál og skiptir miklu að við höldum áfram að styðja við náungann. Í athvarfinu Læk mætir reglulega góður hópur af fólki og hefur núverandi deildarstjóri hlotið þann heiður að leysa forstöðumanninn af síðustu þrjú sumur og hefur því kynnst persónulega því mæta starfi sem þar fer fram. Vel gengur hjá prjónahópunum í Hafnarfirði og Garðabæ og hefur fólk bæst í hópinn, þá sérstaklega hefur hópurinn stækkað í Garðabæ. En prjónahóparnir sjá um að prjóna og útbúa ungabarnapakka sem sendir eru til bágstaddra í Hvíta-Rússlands. Samhliða sífellt aukinni umræðu um málefni hælisleitenda og flóttamanna var aukin umræða um fordóma og umburðalyndi í samfélaginu. Brýnt er að hugsjónir Rauða krossins um mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi, einingu og alheimshreyfingu séu ofarlega á baugi í öllu starfi félagsins. Afdráttalaus afstaða Rauða kross hreyfingarinnar gegn hverskyns fordómum og mismunun þarf því að koma enn skýrar fram til að tryggja umburðalynt fjölmenningarsamfélag. Árið var viðburðaríkt og framundan eru fleiri áskoranir og verkefni sem Rauði krossinn þarf að takast á við. Við í Rauða krossinum í Hafnarfirði og Garðabæ tökum þeim áskorunum fagnandi og tökumst á við komandi verkefni með jákvæðni, samvinnu og lausnamiðaðri hugsun að leiðarljósi.

Páll Daníelsson deildarstjóri

Benedikt Gröndal formaður

Page 3: Ársskýrsla 2016

3

Rauði krossinn í Hafnarfirði og Garðabæ Rauða krossins í Hafnarfirði og Garðabæ var stofnaður 29. apríl 2015 og við það sameinuðust tvær deildir Rauði krossinn í Hafnarfirði og Rauði krossinn í Garðabæ. Því er þetta önnur ársskýrsla sameinaðs félags. Starf Rauða krossins á svæðinu á sér langa sögu og byggir á gömlum merg. Rauði krossinn í Hafnarfirði var stofnaður árið 1941 og Rauði krossinn í Garðabæ 1969. Einnig var starfandi deild í Bessastaðahreppi sem síðar varð Rauði krossinn á Álftanesi sem sameinaðist Rauða krossinum í Garðabæ árið 2013. Félagar í sameinaðri deild eru 2225 og virkir sjálfboðaliðar 266. Virkir sjálfboðaliðar eru þeir sem starfa reglulega fyrir deildina og hafa skrifað undir sjálfboðaliðasamning. Þó eru alltaf nokkuð fleiri sem eru í sjálfboðnu starfi fyrir félagið t.d. í gegnum Læk, Félag eldri borgara á Álftanesi og í kakósöfnun í Jólaþorpinu í desember og fleira. Deildin er með aðstöðu í húsnæði sínu að Strandgötu 24 í Hafnarfirði. Starfið fer þó fram víðar meðal annars hjá Rauða krossinum í Reykjavík, Rauða krossinum á Suðurnesjum og í Ísafold í Garðabæ og á bókasöfnum í Garðabæ og í Hafnarfirði. Þá er Lækur, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, með starfsemi í sína í notalegu húsi að Hörðuvöllum 1. Samstarf deildarinnar við aðrar deildir á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist, einkum við deildirnar í Kópavogi, Mosfellsbæ og Reykjavík. Sameiginleg verkefni eru nú nokkur, þar á meðal rekstur fataverslana sem Rauði krossinn í Kópavogi heldur utanum, sameiginleg sjálfboðaliða umsýsla og fræðsla sem Reykjavíkurdeild sér um, samstarf í flóttamannamálum, auk fataúthlutunar og áfallasjóðs sem er í umsjón Rauða krossins í Reykjavík. Þá höfum við unnið að hælisleitendaverkefni með Rauða krossinum í Mosfellsbæ ásamt landskrifstofu Rauða krossins. Þá er samstarf við landsskrifstofu mikið og snýr einkum að málefnum hælisleitenda en deildin hefur um árabil vistað verkefni tengdum hælisleitendum, stjórnsýslu, rekstri og fleiru. Haldnir voru 11 stjórnarfundir á árinu 2016. Breytingar urðu á starfsmannahaldi. Zoe Robert hóf störf sem verkefnastjóri hælisleitenda í febrúar, Hafsteinn Gunnar Hafsteinsson hóf störf sem verkefnisstjóri hælisleitenda í nóvember og Lára Jónasdóttir hóf störf sem verkefnisstjóri hælisleitenda í desember. Julie Ingham verkefnisstjóri hælisleitenda hætti störfum í ok árs og að lokum sagði Hildur Tryggvadóttir Flóvenz deildarstjóri starfi sínu lausu í nóvember en starfaði út árið.

Page 4: Ársskýrsla 2016

4

Stjórn, nefndir og starfsfólk Stjórn Rauða krossins í Hafnarfirði og Garðabæ Benedikt Gröndal, formaður Karólína Stefánsdóttir, varaformaður Sigrún Þorgrímsdóttir, gjaldkeri Helga María Guðmundsdóttir, meðstjórnandi Markús Már Efraím, meðstjórnandi Telma Hlín Helgadóttir, meðstjórnandi Valgerður Fjölnisdóttir, meðstjórnandi Arna Bergrún Garðarsdóttir 1.varamaður Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, 2. varamaður Félagslega kjörnir skoðunarmenn reikninga Ragnhildur Steingrímsdóttir Ólafur Reimar Gunnarsson

Löggiltir endurskoðendur Grant Thorton endurskoðun ehf.

Umsjónarmaður með skyndihjálp Magnús Kristófersson

Fulltrúi í verkefnastjórn Lækjar Ingibjörg Ásgeirsdóttir

Fulltrúar í neyðarvarnaráði hbsv. Helgi Ívarsson Hildur Tryggvadóttir Flóvenz

Fulltrúi í fjölmenningarteymi Hafnarfjarðar Hildur Tryggvadóttir Flóvenz

Hópstjórar Heimsóknavina Guðrún Emilsdóttir María Björnsdóttir Sigrún Jónsdóttir

Starfsmenn Hildur Tryggvadóttir Flóvenz, deildarstjóri Karólína Stefánsdóttir – afleysing deildarstjóra Julie Ingham, verkefnastjóri – lét af störfum í desember Hafsteinn Gunnar Hafsteinsson, verkefnastjóri , hóf störf í nóvember Lára Jónasdóttir, verkefnisstjóri– hóf störf í desember Zoe Robert, verkefnisstjóri – hóf störf í febrúar Kristín Björnsdóttir, verkefnastjóri Þórdís Guðjónsdóttir, forstöðumaður Lækjar Páll Daníelsson, afleysing fyrir forstöðumann Lækjar Sigrún Jónsdóttir, afleysing fyrir forstöðumann Lækjar Gwendolyn Reyes Catillon, ræstingar og salur Luzviminda Velasco Burnot, salur og ræstingar.

Sjálfboðaliði á vegum Aus Zeinab Mohammed Maalow – hóf störf í september .

Page 5: Ársskýrsla 2016

5

Verkefni Rauða krossins í Hafnarfirði og Garðabæ Verkefni Rauða krossins í Hafnarfirði og Garðabæ voru með nokkuð hefðbundnu sniði og haldið var áfram að sinna öllum verkefnum sem deildin hafði unnið áður. Þá var hafist handa við þróun nýrra verkefna auk þess sem verkefni með hælisleitendum stækkuðu talsvert.

Flóttamenn Rauði krossinn sinnir mörgum verkefnum er kemur að móttöku flóttamanna hér á landi og hefur komið að móttöku allra flóttamanna sem komið hafa til Íslands frá árinu 1956. Rauði krossinn á Íslandi gerir samning við Velferðaráðuneyti um stuðning við flóttafólk. Á höfuðborgarsvæðinu starfa deildir félagsins saman að móttöku flóttamanna og fer Rauði krossinn í Reykjavík með umsjón verkefnisins. Þrjár flóttamannafjölskyldur komu til Hafnarfjarðar á árinu, fyrst komu tvær fjölskyldur í apríl og að lokum sú þriðja í október. Undirbúningur fyrir komu þeirra fór vel fram og gekk snurðulaust að safna húsgögnum, standsetja íbúðir og þjálfa stuðnings- fjölskyldur. Þegar fjölskyldurnar komu til landsins gekk þeim og stuðningsfjölskyldum vel að ná saman. Nánar um flóttamannaverkefni á höfuðborgar-svæðinu má lesa í ársskýrslu Rauða krossins í Reykjavík.

Starf með hælisleitendum Starf með hælisleitendum var stærsta verkefni deildarinnar á árinu. Starfið hófst árið 2006 með heimsóknum til hælisleitenda og á þeim níu árum sem liðin eru hefur mikið vatn runnið til sjávar í málefnum þeirra á Íslandi. Um mitt ár 2014 urðu breytingar á móttöku og málsmeðferð hælisleitenda hér á landi og við það breyttist einnig hlutverk Rauða krossins. Viðtalstímar og málsvarastarf, sem áður var að mestu unnið hjá Rauða krossinum í Hafnarfirði, var fært til landsskrifstofu og fékk aukinn styrk með samningi Rauða krossins á Íslandi og Innanríkisráðuneytisins. Í kjölfarið urðu verkefni deildarinnar fyrst og fremst að sinna félagsstarfi og heimsóknum til hælisleitenda, en félagslegur stuðningur er hluti af þjónustu Rauða krossins samkvæmt fyrrnefndum samningi. Markmið félagsstarfs og heimsókna til hælisleitenda er að koma í veg fyrir einangrun, skapa jákvæða upplifun af Íslandi og hefja gagnkvæma aðlögun eins fljótt og auðið er. Mikil fjölgun var í hópi hælisleitenda á árinu, en alls nutu 1132 hælisleitendur þjónustu Rauða krossins á árinu sem er nær þreföldun frá árinu áður þar sem 350 hælisleitendur nutu þjónustu Rauða krossins. Að sama skapi fjölgaði sjálfboðaliðum í verkefninu ört og í lok árs höfðu um 80 sjálfboðaliðar tekið þátt í verkefnum, í félagsstarfi, heimsóknum eða öðrum verkefnum tengdum hælisleitendum. Þar af voru 25 sjálfboðaliðar mjög virkir í verkefninu. Margir tóku þátt í stuttan tíma og hluti þeirra voru háskólanemendur. Um mitt ár var ákveðið að taka sjálfboðaliðaumsýsluna í endurskoðun, gerðar voru meiri kröfur til sjálfboðaliða og hversu mikið er ætlast til af þeim, bæði varðandi lengd verkefna og fjölda tíma. Áhersla er lögð á að halda í góða og velþjálfaða sjálfboðaliða til lengri tíma. Settur var meiri fókus á mörk sjálfboðaliða og siðfræðileg viðmið. Einnig var farið yfir hvernig við getum haldið sjálfboðaliðum í verkefninu án þess að þeir brenni út. Það hafa verið mikil afföll af sjálfboðaliðum í verkefninu, þar sem að það reynir mjög á andlegu hliðina. Verður þetta eitt af forgangs verkefnum næsta árs að vinna í því að halda vel utan um góða sjálfboðaliða félagsins.

Page 6: Ársskýrsla 2016

6

Sjálfboðaliðar í verkefninu hittust reglulega til að undirbúa sig fyrir heimsóknir og viðburði, auk þess hafa þeir sótt margskonar fræðslu sem styður þá í starfinu. Á árinu var hafin markvissari þjálfun þeirra. Haldin voru fjögurra tíma námsskeið um innflytjendafræðslu, sem var þróuð í samvinnu við verkefnastjóra í Kópavogi, Reykjavík og Efstaleiti. Þetta námsskeið er skylda fyrir alla sjálfboðaliða sem vilja vinna með innflytjendum. Eftir opin hús í Efstaleiti var oft boðið upp á stutt námskeið af ýmsum toga fyrir sjálfboðaliða. Sjálfboðaliðar komu samtals 895 sinnum í starfið á árinu að undanskildum undirbúnings- og fræðslufundum sem er mikil aukning frá árinu áður, en þá voru það 596 skipti. Komur og þátttaka hælisleitenda í viðburði var að minnsta kosti 5500 skipti en ekki var alltaf skráður mætingarfjöldi. Að auki var ekki haldið utan um fjölda þeirra sem nutu heimsókna sjálfboðaliða.

Félagsstarf

Félagsstarfið var áfram í stöðugri þróun á árinu og til að takast á við stækkun verkefnisins var bætt við tveimur stöðugildum í lok ársins. Einnig bættist við nýr liðsauki í formi sjálfaboðliða að nafni Zeinab Mohammed Maalow og var í fullu starfi í deildinni. Nánar er fjallað um störf hennar í sjálfboðaliðar kaflanum. Hælisleitendur eru staðsettir víðar um landið en áður og eru núna til dæmis einnig í búsettir í Arnarholti og Víðinesi. Nýjum staðsetningum fylgja áskoranir fyrir starfsmenn og sjálfboðaliða til að geta náð til allra hælisleitenda.

Í grunninn byggir starfið á opnum húsum og eru þau í Reykjavík, Í Hafnarfirði og í Reykjanesbæ. Einnig eru Konumorgnar fastir viðburðir í Hafnarfirði, en þangað mæta einungis konur og börn einu sinni í viku. Komið var á vikulegum fótboltaæfingum og einnig var komið af stað tveimur íslensku og ensku námskeiðum, sem stóðu yfir í fjórar vikur sem haldið verður áfram með á næstunni. Á opnum húsum er ýmislegt gert. Þar á meðal má nefna fræðslu um íslenskt samfélag, heimsóknir á söfn, gönguferðir um höfuðborgarsvæðið, bíómyndaáhorf, kíkt í keilu og ýmsa leiki. Hælisleitendur elda svo fyrir hver fyrir annan og kynna þannig matarmenningu úr heimalandinu. Meiri áhersla var lögð á þátttöku hælisleitenda almennt í verkefnum. Sem felur meðal annars í sér að þeir hjálpa við að undurbúa opin hús, frágang, túlka fyrir hvorn annan og ásamt ýmsum stuðningi hver fyrir annan og starfsmenn Rauða krossins. Tveir fundir voru skipulagðir fyrir hælisleitendur sem að óskuðu eftir að verða sjálfboðaliðar. Einnig var haldið skyndihjálparnámsskeið fyrir þá. Á opnum húsum eru jafnframt skipulagðar sérstakar tómstundir fyrir börn og byggir það mest á fræðslu, föndri og leikjum. Í viðburðum geta hælisleitendur leitað eftir ýmsum upplýsingum hjá sjálfboðaliðum og verkefnastjórum og þeim vísað áfram. Í heildina voru 307 viðburðir á árinu samanborið við 135 viðburði á árinu áður. Það skýrist af fjölgun hælisleitenda og aukinni þátttöku í starfi.

Page 7: Ársskýrsla 2016

7

Af stökum viðburðum má nefna skautaferðir, keila í Egilshöll og go-kart. Farið var í nokkrar dagsferðir þar á meðal um Suðurland, Gullna hringinn, Þingvelli og Landsnámssetrið í Borgarnesi. Jafnframt var farið í heimsókn í Árnastofnun og Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Þá var farið í gönguferðir um Kaldárssel, í lautarferð í Öskjuhlíð og hjólatúr um Reykjavík. Þann 20. júní var svo Alþjóðlegur dagur flóttamanna og haldinn var viðburður á Austurvelli þar sem að hægt var að spjalla við hælisleitendur. Hælisleitendum var boðið í jóga nokkrum sinnum, klippingu og voru það hælisleitendur og nemar úr Tækniskólanum sem sáu um hársnyrtinguna. Kíkt var á sýningu Yoko Ono og á Joss Stone tónleika. Þrennar vetrarhátíðar voru haldnar. Fyrst vetrarhátíðin í desember var haldin af Landsvirkjun í samstarfi við Rauða krossinn, börnum voru gefnar gjafir og boðið upp á glæsilegar veitingar. Einnig var haldin vetrarhátíð í Keflavík af Rauða krossinum og þá fengur börn jafnframt gjafir og boðið var upp á góðan mat. Að auki var haldin sameiginleg hátíð með félagsþjónustunni og sá Svavar Knútur um tónlistina, íbúar í nágrenninu um mest allan mat, ásamt því að Dominos bauð uppá pítsuveislu. Svo í lok desember var haldið fjölskyldubíókvöld í samstarfi við Smárabíó. Fjöldi fyrirtækja og stofnanna hefur stutt við starfið á árinu bæði í formi afslátta og gjafa og þannig gert deildinni kleift að reka jafn öflugt félagsstarf og raun ber vitni. Þar á meðal bauð Háskóli Íslands upp á vísindavinnustofu, hárgreiðslunemar frá Tækniskólanum buðu upp á klippingu, City Hostel bauð okkur upp á hjólaferð, GO-KART brautin bauð hælisleitendum í go-kart og margir aðrir frábærir aðilar styrktu starfið á annan hátt árinu. Deildin þakkar öllum sem hafa lagt verkefninu lið á einn eða annan hátt.

Lækur Starfsemi Lækjar var með hefðbundnum hætti en að athvarfinu standa Hafnarfjarðarbær og Rauði krossinn í Hafnarfirði og Garðabæ. Að vanda var nóg um að vera og margt gert til að auka lífsgæði þeirra sem sækja Læk. Opið var frá kl. 9.00 – 16.00 alla virka daga allt árið um kring. Aðsókn var góð og voru komur að meðaltali tæplega 300 í mánuði. Í Læk er unnið eftir hugmyndafræði valdeflingar (e. empowerment) en í þeirri hugmyndafræði er stuðlað að betri líðan einstaklinga með geðraskanir og reynt að hvetja þá til þess að hafa skoðanir, taka ákvarðanir og velja sér sjálfir lífsstíl. Sex sjálfboðaliðar komu að starfi Lækjar. Þeir komu allir einu sinni í viku og voru hálfan dag í senn. Ýmist buðu þeir upp á fræðslu, kennslu í listsköpun eða annan almennan stuðning við gesti. Þá sinntu félagar úr Oddfellow reglu Bjarna riddara einnig sjálfboðnum störfum í þágu Lækjar. Loks heimsóttu hjúkrunarnemar í starfsnámi á heilsugæslustöðvunum í Hafnarfirði Læk og fræddust um starfsemina. Mörg fyrirtæki styrktu fólkið í Læk þegar safnað var fyrir vinningum fyrir jólabingó má þar sérstaklega nefna Fjarðarkaup sem gefur alltaf góða vinninga og styrkti athvarfið einnig fyrir páska en þá var haldið páskabingó.

Page 8: Ársskýrsla 2016

8

Starf Lækjar Föst dagskrá deildarinnar var með hefðbundnu sniði sem felur í sér sjálfstyrkingu, heilsueflingu, stuðning til reykleysis, föndur, hreyfingu, listsköpun, tálgun, heimsóknir á listasöfn og kaffihús o.fl. Einnig var farið í leikhús. Á vorönninni var boðið upp á námskeið í listmálun sem Kristbergur Ó. Pétursson sá um. Ása Björk Snorradóttir kenndi einnig listsköpun einu sinni í viku um tíma á árinu í sjálfboðavinnu. Jón Sigurgeirsson var með fræðslu af ýmsum toga einu sinni í viku í sjálfboðavinnu. Einstaklingar sem sótt hafa Læk hafa komið að kennslu við föndur, sem og starfsmenn Lækjar sem hafa haldið utan um námskeið í skartgripagerð o.fl. Um haustið byrjaði Hanna Kjeld matreiðslukennari að kenna matreiðslu í sjálfboðavinnu einu sinni í viku. Þeim sem sækja Læk var boðið að hlýða á tónleikaröð sem tengist verkefninu ,,Töframáttur tónlistar” sem Gunnar Kvaran sellóleikari er listrænn stjórnandi að og eru tónleikarnir haldnir á Kjarvalsstöðum. Af öðrum viðburðum má nefna þorrablót og dagsferð í Borgarfjörð um sumarið. Farið var í Dvöl og grillað með fólki úr Dvöl og Vin. Í október var haustferð með athvörfunum Vin, Dvöl og Laut í Borgarnesi og dvalið þar í tvær nætur. Í desember var mikið gert úr aðventunni og var t.d. farið á jólahlaðborð, jólatónleika , haldið var jólabingó og jólagleði í Læk.

Samstarf og stuðningur Fulltrúar frá Læk voru í samstarfi við athvörfin Vin í Reykjavík, Dvöl í Kópavogi og Laut á Akureyri. Fulltrúi frá Læk tók þátt samráðsfundum sem Geðhjálp stóð að ásamt fulltrúum frá öðrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Fulltrúar frá Læk tóku þátt í að undirbúa Alþjóða geðheilbrigðisdaginn 10. október, þar sem starfsmaður frá Læk var formaður undirbúningsnefndarinnar þetta árið. Yfirskriftin var „Virðing er fyrsta hjálp“. Lækur var með opið hús í viku í tengslum við Alþjóða geðheilbrigðisdaginn. Um haustið var haldinn sameiginlegur fundur starfsmanna athvarfanna Lækjar, Vinjar, Dvalar og Lautar. Að þessu sinni var fundurinn var haldinn í sal Rauða krossins í Hafnarfirðir og Garðabæ fyrir hádegi og í Læk eftir hádegið. en þá var boðið upp á fræðslu fyrir starfsfólkið um „Lausnarmiðaða nálgun“ en fyrirlesari var Helga Þórðardóttir.

Komufjöldi Komufjöldi yfir árið var samtals 3347, það er að segja að meðaltali 14 - 15 manns daglega, svipað og 2015 en þá var komufjöldi 3488. Ekki var mikill munur á milli mánaða, en áberandi er að mesti fjöldinn er í mánuðunum mars og apríl og september og október. Færri komur voru í maí og júní sem skýrist vegna lokunar síðustu viku í maí og fyrstu viku í júní, og vegna breytingar á staðsetningu starfseminnar tvær vikur í júní en þá var hún í húsi Rauða krossins. Komufjöldi í mat var 1788. Fjöldi þeirra sem hafa komið í Læk reglulega eða óreglulega og hafa verið í tengslum við Læk á þessu tímabili eru samtals 75 manns. Kynjaskiptingin var á þann veg að konur voru samtals 43 en karlmenn samtals 32. Þeir sem sóttu Læk reglulega í hverri viku allt árið eða hluta af árinu eru samtals 49, 30 konur og 19 karlmenn.

Page 9: Ársskýrsla 2016

9

Heimsóknarvinir Meginmarkmið verkefnisins er að draga úr félagslegri einangrun fólks. Sjálfboðaliðar heimsækja gestgjafa sína ýmist á einkaheimilum eða stofnunum oftast einu sinni í viku klukkutíma í senn. Verkefnastjóri heimsókna- vina hefur umsjón með verkefninu ásamt þriggja manna hópstjórn skipuð sjálfboðaliðum. Í lok árs voru 25 gestgjafar heimsóttir af 23 sjálfboðaliðum. Auk þess eru þrír sjálfboðaliðar sem heimsækja hópa, lesa og syngja bæði á Hrafnistu og Sólvangi í Hafnarfirði. Komið var á samstarfi milli deildarinnar og deildanna í Kópavogi og Reykjavík um þjálfun

sjálfboðaliða. Haldin voru sameiginleg 11 heimsóknavina námskeið á höfuðborgarsvæðinu á árinu sem 89 manns sóttu. Sjálfboðaliðar í verkefninu hittust átta sinnum á árinu og mættu að meðaltali 9 til 10 sjálfboðaliðar í hvert skipti. Á þessum mánaðarlegu fundum var fjallað um ýmis málefni sem tengjast verkefninu. Til dæmis var fengin fræðsla Félagsþjónustu Hafnarfjarða sem Séra Sigríður frá Fríkirkjunni sá um og ræddi við heimsóknarvini um sorgina. Einnig var haldin sameignleg fræðsla hjá heimsóknarvinum höfuðborgarsvæðisins um hreyfingu aldraðra, kvíða og áhyggjur.

Heilahristingur Unnið var að verkefninu Heilahristing í samstarfi við Bókasafn Garðabæjar, Bókasafn Hafnarfjarðar og Álftanessafn. Þetta var annað árið sem unnið var með Bókasafni Garðabæjar, en samstarfið hófst í byrjun árs með Bókasafni Hafnarfjarðar og Álftanessafni. Um er að ræða heimanámsaðstoð fyrir grunnskólabörn. Markmið verkefnisins er að aðstoða börn sem ekki eiga tök á aðstoð við heimanámið heima fyrir. Lögð er áhersla á góða samvinnu við skóla og kennara. Starfið fór fram einu sinni í viku. Sjálfboðaliðar aðstoða við kennsluna og starfsmenn bókasafnsins undirbúa aðstöðu og veita upplýsingar á bókasafninu. Í verkefninu voru alls 12 virkir sjálfboðaliðar á árinu. Starfið hjá Bókasafni Garðabæjar gekk áfram ágætlega og mættu að jafnaði 4-6 börn í hvert skipti, sem var lítilsháttar fækkun frá fyrra ári. Var aðstoðin auglýst fyrir börn í 1. bekk og upp úr. Starfið hjá Bókasafni Hafnarfjarðar gekk ágætlega og mættu að jafnaði 3-5 börn í hvert skipti. Var aðstoðin auglýst fyrir 1. bekk og upp úr. Starfið hjá Álftanessafni byrjaði í mars og var alveg þangað til í maí en mæting var ekki mikil, en aðeins mættu að jafnaði um 1-3 börn í hvert skipti. Verkefnið í Álftanesi var svo sett í salt vegna dræmrar þátttöku á vetrarönn. Í haust fór verkefnastjóri heilahristings með kynningar í grunnskóla Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Var verkefnið kynnt fyrir kennurum og starfsmönnum og óskað eftir samstarfi til að auka þátttöku barna í verkefninu.

Page 10: Ársskýrsla 2016

10

Orð hafa ábyrgð Byrjað var á vinnu í verkefninu Orða hafa ábyrgð árið 2015. Verkefnið snýr að bættri orðræðu ungmenna og barna og er búið að gera forvinnu og gera drög að myndrænu fræðsluefni og kynningu fyrir skóla sem unnið var af sjálfboðaliðum, starfsmanni deildar, leikkonu og sálfræðingi. Verkefnið er kostnaðarsamt og var ákveðið að salta það aðeins þar til það hefur verið að fullu fjármagnað. Farið verður yfir það á komandi á ári og skoðað hver staða verkefnis er.

Ungmennastarfi URKÍ Ungmennastarfið lagðist niður á árinu sökum dræmar mætingar og það hafði verið erfitt að manna starfið með sjálfboðaliðum. Ákvörðun var tekin í apríl um að það færi í dvala í óákveðinn tíma. Ungmennastarfið hefur í mörg ár verið blómlegt í Hafnarfirði og vonumst við til að það verði vakið aftur af dvala með nýju fólki á næsta ári.

Föt sem framlag Það er líf og fjör þegar hóparnir í Fötum sem framlagi hittast. Hjá deildinni eru tveir hópar, annar í Hafnarfirði og hinn í Garðabæ. Hafnarfjarðarhópurinn hittist alla þriðjudaga á Strandgötunni en Garðabæjarhópurinn hittist tvisvar í mánuði í húsakynnum Ísafoldar í Garðabæ. Starf hópanna var öflugt á árinu. Meginmarkmið verkefnisins er að útbúa ungbarnapakka með hlýjum fatnaði sem síðar eru sendir til Hvíta-Rússlands og dreift til bágstaddra þar af Rauða krossinum í Hvíta-Rússlandi. Í hverjum ungbarnapakka er teppi, handklæði, nærfatnaður, tvær peysur, buxur, húfa og tvö pör af sokkum. Peysurnar, húfur, sokkar, teppi og bleyjubuxur er ýmist prjónað eða saumað en nærföt og handklæði koma frá Fatasöfnun og sjá sjálfboðaliðar um að laga þau ef þarf og þvo áður en þau eru sett í pakkana. Auk hópanna tveggja prjónuðu og hekluðu einstaklingar í Félagi eldri borgara á Álftanesi varning í verkefnið og afhendu deildinni sem sá um senda út. Einnig berst reglulega varningur frá gestum Lækjar. Alls voru samtals 55 sjálfboðaliðar virkir í verkefninu á árinu. Hafnarfjarðarhópurinn hittist 38 sinnum og pakkaði tvisvar samtals 212 ungbarnapökkum. Garðabæjarhópurinn hittist 19 sinnum á árinu og pakkaði tvisvar sinnum samtals 219 pökkum.

Page 11: Ársskýrsla 2016

11

Einstaklingsaðstoð innanlands

Áfallasjóður Breytingar voru gerðar á einstaklingsaðstoð innanlands hjá deildum Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu í lok árs 2015 og var stofnaður Áfallasjóður. Allar deildir á höfuðborgarsvæðinu koma að Áfallasjóði sem hefur þann tilgang að aðstoða fólk sem verður fyrir skyndilegu fjárhagslegu áfalli og fær enga, eða mjög litla aðstoð annars staðar. Áhersla er á að hjálpa fólki, einkum tekjulágum fjölskyldum og einstaklingum, að ná sér aftur á strik eftir ófyrirséð fjárhagslegt áfall, svo sem í tengslum við sjúkdóma og slys. Aðstoð sem veitt er á að vera raunhæf og stuðla að því að skjólstæðingar nái aftur sjálfbærni. Sjóðstjórn er skipuð fulltrúum deilda á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúum landsskrifstofu. Hlutverk sjóðsstjórnar er að setja stefnu og reglur, afla tekna, fylgjast með starfi úthlutunarnefndar, fara yfir stöðu sjóðsins og taka afstöðu til álitaefna sem upp hafa komið. Úthlutunarnefnd, sem í eru tveir einstaklingar sem þekkja til velferðarmála og einn fulltrúi sjóðsstjórnar, tekur endanlegar ákvarðanir um úthlutanir. Starfsmaður undirbýr fundi úthlutunarnefndar og útbýr yfirlit um allar umsóknir, situr jafnframt fundina og ritar fundargerð. Hann er einnig umsækjendum innan handar við útfyllingu umsókna. Á árinu 2016 voru teknar ákvarðanir um styrki til 44 einstaklinga og var tæplega 12 milljónum úthlutað.

Fatakort Árið 2016 var fyrsta heila árið þar sem að fatakort voru notuð í stað fataúthlutunar. Kortin er hægt að nýta við verslun í Rauða kross búðunum og hófst notkun þeirra í október 2015. Markmið með þessu var að setja reisn skjólstæðinga í fyrirrúm og tryggja betur að þeir fái fatnað við hæfi. Hver einstaklingur getur sótt um kort tvisvar á ári, í fyrri úthlutun eru veitt tvö kort að upphæð 5000 kr. hvort og í þeirri seinni eitt kort að upphæð 5000 kr. Almenn afgreiðsla á fatakortum er á þriðjudögum kl. 13:00-16:00. Rauði krossinn sér einnig um úthlutanir á fatnaði til hælisleitenda. Afgreiðslutími fyrir hælisleitendur er á mánudögum og fimmtudögum á milli kl 12:30 -15:00 í Efstaleiti 9. Á meðan að fólk er í þessari biðstöðu getur það sótt um kort á tveggja mánaða fresti. Alls fengu 1154 hælisleitendur úthlutað 3771 fatakorti á árinu.

Tómstundasjóður Rauði krossinn hefur sett á fót sjóð til að styðja börn flóttafólks og hælisleitenda búsettra hér á landi til að stunda tómstundir ef ekki fæst styrkur annarstaðar. Hægt er að sækja um tvisvar á ári fyrir hvert barn. Úthlutað er allt að 30.000 kr. á ári á barn. Styrki úr sjóðnum má veita til hvers kyns tómstunda barna enda er það val barnanna og fjölskyldna þeirra hvaða tómstund er stunduð. Styrkir geta því verið fyrir námskeiðum, tónlistarnámi, íþróttaiðkun, dansnámi eða annars konar tómstund. Styrkir skulu ekki einskorðast við greiðslu á föstum gjöldum heldur einnig fyrir áhöldum, fatnaði og ferðum er tengjast tómstundinni. Einnig er veittur stuðningur fyrir tækjum sem nýtast í frítíma barna svo sem hjólum, hlaupahjólum, hjólaskautum og hjálmum. Á árinu úthlutaði Hafnarfjarðar- og Garðabæjardeild sex börnum styrk úr sjóðnum. Fimm voru börn hælisleitenda og eitt barn flóttamanna.

Page 12: Ársskýrsla 2016

12

Sameiginleg verkefni Fataverslanir Fataverslanir Rauða krossins voru orðnar fimm talsins á höfuðborgarsvæðinu. Nýtt verslunarhúsnæði var opnað í febrúar að Skólavörðustíg 12. Að rekstri þeirra standa deildir Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu og hefur Rauði krossinn í Kópavogi umsjón með rekstri þeirra samkvæmt samkomulagi deildanna á milli. Fataverslanir voru staðsettar á Laugavegi 12, Laugavegi 116, Í Mjóddinni, Skólavörðustíg 12 og á Strandgötu 24 í Hafnarfirði. Á árinu voru allar fatabúðir teknar í gegn og voru þrjár opnaðar með nýju útliti. Samræmd útlit var tekið upp og verslunarrekstur tekinn í gegn. Fyrsta verslunin með nýju útliti var verslun á Laugavegi 116. Opnunartími er misjafn eftir verslunum en 146 sjálfboðaliðar unnu í verslunum á árinu, langflestir á reglulegum vöktum. Rekstur þeirra gekk vel á árinu og var heildarsala fyrir ríflega 125 milljónir miðað við 115 milljónir árið áður. Sala í versluninni á Strandgötu 24 dróst saman og var tæplega 7 milljónir miðað við tæpar 7, 4 milljónir í fyrra.

Neyðarvarnir Frá árinu 2010 hafa deildir á höfuðborgarsvæðinu unnið saman að neyðarvörnum á svæðinu. Í lok árs 2014 var gert samkomulag við Neyðarmiðstöð um að hún tæki að sér umsjón neyðarvarna á svæðinu fyrir hönd deildanna. Komið var á fót neyðarvarnaráði með fulltrúum allra deilda sem hefur fyrst og fremst eftirlitshlutverk ásamt því að samþykkja fjárhags- og framkvæmdaáætlanir sem Neyðarmiðstöð leggur fram. Formennska í ráðinu skiptist á milli deilda og fór Rauði krossinn í Mosfellsbæ með formennsku á árinu. Neyðarvarnaráð fundaði tvisvar sinnum á árinu. Fimm hópar sjálfboðaliða eru starfandi í neyðarvörnum á höfuðborgarsvæðinu; viðbragðshópur, áfallateymi, skyndihjálparhópur, búnaðarhópur og bakvakt. Í lok árs voru 25 sjálfboðaliðar voru virkir í viðbragðshópi, 23 í áfallateymi og 11 í skyndihjálparhópi. Útköll á höfuðborgarsvæðinu voru allnokkur bæði hjá viðbragðshópi og áfallateymi. Verkefnum í sálrænum stuðningi hefur fjölgað meðal annars vegna flóttamanna og hælisleitenda.

Önnur starfsemi

Sjálfboðaliðar Undanfarin ár hefur samvinna deilda á höfuðborgarsvæðinu aukist í málefnum sjálfboðaliða. Í nóvember var lögð fram tillaga til stjórna allra deilda á höfuðborgarsvæðinu um samræmingu í umsýslu sjálfboðaliða og fræðslu. Var lagt upp með að ein deild hefði umsjón með fyrstu umsýslu sjálfboðaliða og samræmdi ferli fyrir sjálfboðaliða sem og fræðslu í samvinnu deilda. Umræður í stjórnum deildanna um tillögurnar lágu fyrir í upphafi árs 2016. Deildin hélt áfram þátttöku í samstarfsnetinu ENDOV, European network on development of volunteering, sem er samstarfsnet landsfélaga Rauða krossins í Evrópu um þróun sjálfboðins starfs. Sóttir voru tveir fundir, sá fyrsti í Osló í maí og sá seinni í október í Madrid.

Page 13: Ársskýrsla 2016

13

Haldinn var sameiginleg sjálfboðaliðahátíð í desember með Kópavogs deild Rauða krossins sem að tókst einstaklega vel. Samstarf hefur aukist með deildinni síðustu ár, sérstaklega í tengslum við sjálfboðaliða og hefur samstarfið gengið mjög vel. Sjálfboðaliði að nafni Zeinab Mohammed Maalow kom til starfa í deildinni í september í samtarfi við Alþjóðleg Ungmennaskipti (Aus). Aus eru frjáls félagasamtök sem sérhæfa sig í að taka á móti ungu fólki í sjálfboðaliðastörf. Hún hóf störf í ágúst og er í starfsnámi í ár hjá deildinni. Hún hefur aðallega unnið í hælisleitendaverkefnum. Einnig voru fimm aðrir sjálfboðaliðar að störfum hjá Reykjavíkurdeild, verkefnið hefur hingað til gengið vel og verður vel skoðað hvort að við höldum áframhaldandi samstarfi.

Sjálfboðaliðateymi Sett var á laggirnar sameiginlegt teymi um þróun sjálfboðaþjónustu innan Rauða krossins. Í teyminu situr einn aðili frá Kópavogsdeild, einn aðili frá Hafnarfjarðar- og Garðabæjardeild, einn aðili frá sjálfboðaliðamiðstöð, einn aðili frá neyðarsviði og einn aðili frá Landsskrifstofu. Verkefni hópsins er m.a. að fara yfir verkferla tengda sjálfboðliðahringnum, fara yfir fræðslumál félagsins og samræma móttöku sjálfboðaliða. Fjáröflun og gjafir Tekjur deildarinnar koma einkum fram með þrennum hætti; af kassatekjum, með framlögum úr verkefnasjóði og af fatasöfnun. Þá hefur deildin tekjur af húsaleigu en salur í húsnæði deildarinnar er leigður út fyrir veislur og fundi. Salurinn var leigður út fyrir margar veislur á árinu en þar fyrir utan varð aukning á notkun salarins hjá ýmsum deildum innan Rauða krossins þar sem að samstarf deilda er sífellt að aukast. Þar að auki var staðið fyrir einum fjáröflunarviðburði á árinu, kakósöfnun í Jólaþorpinu. Deildinni bárust nokkrar gjafir á árinu. Þar á meðal gaf einstaklingur sem ekki vill láta nafn síns getið 1 milljón króna í desember. Ákvað stjórn deildarinnar að gjöfin yrði framlag deildarinnar í Áfallasjóð. Fallegu og duglegu börnin í leikskólanum Norðurbergi í Hafnarfirði færðu Rauða krossinum peningagjöf upp á heilar 25.068 kr. sem þau vildu að renndi til Rauða krossins í Líbanon sem rekur heilsugæslu á hjólum. Upphæðin er andvirði heils árs söfnunar og endurvinnslu á flöskum. Leikskólinn færir Rauða krossinum árlega gjöf.

Kakósöfnun Allar fjórar aðventuhelgarnar stóð deildin fyrir kakósöfnun í Jólaþorpinu í miðbæ Hafnarfjarðar. Söfnunin fór fram með þeim hætti að hægt var að fá heitt kakó í skiptum fyrir frjáls framlög. Settur var upp bás og stóðu samtals 16 sjálfboðaliðar vaktina. Því miður brotnaði básinn eftir fyrsta daginn og fengum við inni í einu jólahúsinu fram að síðustu helginni þegar tekið var út borð og sett upp aðstaða fyrir jólakakóið. Söfnunin gekk frekar brösuglega þar sem að erfitt var að manna vaktir en í heildina söfnuðust 449.069 kr. Kostnaður við söfnunina var í lágmarki þar sem Innes gaf kakó og bolla og Omnom gaf súkkulaði. Hagnaður söfnunarinnar var því 432.830 kr. Gott samstarf var við Rauða krossinn í Reykjavík um aðföng.

Fræðslu- og kynningarstarf Fræðslu- og kynningarstarf var að mestu með hefðbundnum hætti á árinu. Nýir sjálfboðaliðar tóku grunnnámskeið á vef félagsins, nýir heimsóknavinir sátu undirbúningsnámskeið og nýir sjálfboðaliðar í ungmennastarfi sóttu skyndihjálparnámskeið og fræddust um starf með börnum og unglingum. Áfram var áhersla á skyndihjálparnámskeið og kynningu auk þess sem námskeiðin Börn og umhverfi voru haldin sem og námskeið í sálrænum stuðningi.

Page 14: Ársskýrsla 2016

14

Alls voru 25 almennar kynningar á árinu ýmist í húsnæði deildarinnar eða annars staðar. Þar af voru fimm kynningar fyrir hjúkrunarnema í starfsnámi á heilsugæslustöðvunum Firði og Sólvangi. Meðal annars voru kynningar í Flensborg, grunnskólum Hafnarfjarðar og Garðabæjar, Actavis, Öldungaráði Hafnafjarðar og Rótarýklúbb Garðabæjar. Þá fengu nemar á 1. ári í félags- og tómstundafræði almenna kynningu á starfsemi Rauða krossins og fræðslu um eðli félagasamtaka. Óskað var eftir því frá stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands að Rauði krossinn tæki á móti hópi af nemendum og starfsfólki frá háskólanum í Timisoara í Rúmeníu en H.Í. er í samstarfsverkefni með þeim skóla. Áhersla í heimsókninni átti að vera um samskipti og samstarf Rauða krossins við stjórnvöld ásamt málsvarastarfi félagsins. Framkvæmdastjóri hélt utan um kynninguna ásamt öðrum starfsmönnum Rauða krossins sem fór fram í Efstaleiti 9, en þar fjallaði hann um samstarf í flóttamanna- og hælismálum. Kynningavika Rauða krossins fór fram um mánaðarmót september og október. Deildin tók þátt í henni með birtingu greina og auglýsinga í bæjarblöðum ásamt því að almenn kynning á starfsemi Rauða krossins var haldin fyrir félagsfólk og almenning.

Ungmennafræðsla Á árinu var ákveðið að búa til nýtt námskeið fyrir sjálfboðaliða sem starfa með börnum og unglingum á vegum Rauða krossins. Var sett saman teymi sem samanstóð af tveimur aðilum úr Hafnarfjarðardeild, einn frá Kópavogsdeild og einn frá Sjálfboðamiðstöð. Var fyrsta námskeiðið haldið í október og mættu 17 sjálfboðaliðar aðallega úr verkefninu Heilahristingur. Á námskeiðinu var farið yfir barnaverndarreglur, sálrænan stuðning fyrir börn, leiðtogafræðslu og jákvætt ungmennastarf.

Skyndihjálp Skyndihjálparkennsla var með hefðbundnum hætti á árinu. Þrjú almenn 4 klst. námskeið voru haldin, tvo á íslensku og eitt á ensku. Þá voru sex 12 klst. námskeið haldin fyrir skóla í Hafnarfirði og Garðabæ. Fjögur þeirra voru haldin fyrir nemendur í Flensborgarskóla, eitt fyrir nemendur í Sjálandsskóla og eitt fyrir nemendur í Áslandsskóla. Tíu 4 klst. námskeið voru haldin á árinu. Fjögur voru haldin fyrir almenning og sjálfboðaliða hjá deildinni, tvö á ensku og tvö á íslensku. Sjö námskeiðanna voru haldin fyrir nemendur eða kennara í skólum í bæjarfélögunum tveimur. Áætlað er að um 250 manns hafi sótt námskeiðin. Þá var haldin skyndihjálparkynning á foreldramorgni á Bókasafni Hafnarfjarðar.

Börn og umhverfi Fjögur Börn og umhverfi námskeið voru haldin á árinu og voru tvö námskeið haldin í húsnæði deildarinnar, eitt í Garðaskóla og eitt í Álftanesskóla. Fullt var á öll námskeiðin nema það sem haldið var á Álftanesi. Hámarksþátttaka á námskeiði er 15 ungmenni.

Sálrænn stuðningur Fjögur námskeið voru haldin í sálrænum stuðningi. Tvö á íslensku og tvö á ensku. Námskeiðin eru einkum ætluð sjálfboðaliðum en eru opin almenningi. Allir sjálfboðaliðar í verkefnum með hælisleitendum, ungmennastarfi og heimsóknarvinum eru hvattir til að sækja þetta námskeið. Alls sátu 29 manns námskeiðin á árinu. Kynningavika Rauða krossins í september var helguð grundvallarmarkmiðum Rauða krossins. Starfsmenn deildarinn héldu fundi og kynningar fyrir sjálfboðaliða í sínum verkefnum til að vekja athygli á markmiðunum og minna sjálfboðliða á hugsjónir Rauða krossins.